Mia rafbíll

Mia er heitið á nýjum frönskum rafbíl sem sérstaklega er hugsaður til nota í borgum og þéttbýli. Bíllinn er þriggja til fjögurra manna og er hann frá grunni hannaður sem rafbíll. FÍB fréttir reynsluóku þessum sérstæða og athyglisverða bíl í Luxembourg fyrr í dag, miðvikudaginn 10 júlí, og tilfinningin var óneitanlega talsvert sérstök. 

 

Innanrými Mia rafbílsins er hannað þannig að ökumaðurinn situr fyrir miðju og hefur þannig jafn gott útsýni til beggja handa, ekki ósvipað og úr ökumannssæti Ferguson traktors. Aftan við ökumannssætið er svo þriggja sæta bekkur. Miðsætið er varla nema fyrir barn, en Isofix festingar eru í því fyrir barnastól. En þeir sem sitja sínu hvoru megin við miðsætið hafa það verulega fínt. Sætin eru ágæt og fótarýmið svo að segja takmarkalaust. Svipaða sögu er svo að segja um ökumanninn. Hann situr hátt og sér vel fram á veginn og til hliðanna og sætið er sérlega vel formað og þægilegt.

 

Bíllinn er fremur hábyggður og á báðum hliðum hans eru rennihurðir sem opnast vel þannig að mjög auðvelt er að stíga inn í bílinn og fá sér sæti, hvort heldur í farþega- eða ökumannsssæti. Í akstri er bíllinn nánast eins og hver annar sjálfskiptur bíll. Fjöðrun er nokkuð stíf eins og títt er um smábíla, aflið er þokkalegt og eftir augnablik er hann búinn að ná umferðarhraða. Þótt uppgefin hestöfl séu einungis 24 er þyngd bílsins ekki nema rúmlega 800 kíló og rafmótorinn gefur fullan togkraft um leið og hann byrjar að snúast. Hann er því síður en svo seinn í upptakinu þótt vissulega myndi maður alveg þiggja fleiri hestöfl.

 

Velja má milli þess að fá bílinn með 8 eða 12 kílówatta rafgeymum. Drægið með minni geymunum er um 80 kílómetrar en með þeim stærri um 125 kílómetrar. Hámarkshraðinn er um 100 km á klst. Mia er þannig ekki bíll sem maður skreppur á í helgarferð austur í sveitir. Hann er sem fyrr segir sérstaklega hugsaður og hannaður til að skjótast erinda sinna innan borgarinnar.

 

Munurinn á honum og tveggja manna borgarfarartækinu Renault Twizy er sá að Mia er bíll. Maður getur lokað gluggunum, hurðirnar eru ekki aukabúnaður, í honum er miðstöð, útvarp, ABS hemlar, skrikvörn og loftpúðar.

 

Burðarvirki bílsins er sterkur rammi úr stálprófílum (Spaceframe) sem ver ökumann og farþega frá öllum hliðum ef slys á sér stað. Að utan er bíllinn klæddur trefjaplasteiningum sem auðvelt er að skipta út ef skemmdir verða, t.d. í árekstrum og ákomum. Allur frágangur að innan er til fyrirmyndar og öll áferð afar smekkleg. Mia er vissulega athyglisverður bíll til þeirra nota sem hann er hugsaður fyrir og hann er túlega einn ódýrasti rafbíllinn sem nú býðst.

 Nánar um Mia http://news.mia-voiture-electrique.com/en/

https://photos-5.dropbox.com/t/0/AAAnwFhJE_MmYUSgkWjbnSmqa_7Zlcu3_OH0T9sr6q0a2Q/12/126331100/jpeg/32x32/3/_/1/2/IMG_7311.JPG/vOiE_LnGY1r_XfI5pR2VP0Kktc7gPuEssf_y34lWpUo?size=1280x960

https://photos-6.dropbox.com/t/0/AABGNJo9y3MFgVO6wawehVe_QWC9WP-1QNrrw6i1hefzDw/12/126331100/jpeg/32x32/3/_/1/2/IMG_7275.JPG/PrC06HxG9SbX6yGUVL9tQbWDxAYDSSLyOS_tUegKX5s?size=1280x960

https://photos-1.dropbox.com/t/0/AABm1FeMQzBlgnbubPs17AzzCDuItUzA7o9HcWb0nM5kZg/12/126331100/jpeg/32x32/3/_/1/2/IMG_7299.JPG/Uk6woolp3YzDfxRhMDwW1vwFUsAohAzleHOuub0_ZK8?size=1280x960

http://www.cab4one.co.uk/blog/wp-content/uploads/2011/12/mia-3.jpg?w=300

https://photos-4.dropbox.com/t/0/AADTGB9ptM1PionVvfv3f_6kLlWPjQt0h--pIwPEJovJcQ/12/126331100/jpeg/32x32/3/_/1/2/IMG_7272.JPG/F4lpZAVedMLhMF-b2N_cClhsEpoa95uNIYAW5Kvgw68?size=1280x960

Þeir sem vilja forvitnast enn frekar um Mia rafbíllinn geta skoðað youtubevideoið hér að neðan frá 2012.