Michael Schumacher hættir

http://www.fib.is/myndir/Schumi-haettur.jpg
Michael Schumacher eftir að hann tilkynnti um endalok glæstasta keppnisferils í sögu mótorsportsins.


 Michael Schumacher varð sigurvegari Formúlu eitt lotunnar sem fram fór á Monza brautinni á Ítalíu í gær. Þegar hann stóð á verðlaunapallinum þar sem hann hefur svo oft áður staðið þau 16 ár sem hann hefur verið þátttakandi í Formúlunni horfði hann um stund þögull yfir rauðklæddan aðdáendahóp Ferrari liðsins. Loks tók hann til máls og sagði fólkinu það sem það vildi síst heyra.

„Síðasti dagurinn mun óhjákvæmilega renna upp og mér fannst að stundin væri komin,“ sagði Schumacher. Hann sagði ennfremur að um leið og flagginu var veifað fyrir honum í lok keppni í gær hefði hann kallað félaga sína og vini í Ferrari liðinu upp í talstöðinni og sagt þeim að hann ætlaði að tilkynna um að hann myndi hætta keppni þegar yfirstandandi keppnistímabili lýkur í Brasilíu 22. október nk.. „Þetta var tilfinningaþrungið augnablik og ég átti erfitt með að hemja tilfinningarnar mínar,“ sagði Schumacher. Sama var að segja um aðdáendurna sem báru borða með áletrunum eins og –Michael! Ekki hætta!

Þar með lýkur senn glæsilegasta keppnisferli mótorsportsins nokkrusinni - ferli sem staðið hefur undanfarin 16 ár og hugsanlega lýkur honum með enn einum sigrinum því að í keppnislotunni í gær dró Schumacher mjög á forskot Fernardo Alonso og stytti það niður í aðeins tvö stig.
„Yfirlýsing Schumachers markar endalok stórveldistímabils,“ sagði Red Bull ökumaðurinn David Coulthard. Hann er sá ökumaður sem hvað lengst hefur att kappi við Schumacher.

Aðspurður um hvað hann færi að gera svaraði Schumacher því til að fyrst um sinn ætlaði hann ekki að gera nokkurn skapaðan hlut. Eftir að hafa hvílt sig vel kæmi í ljós til hvers huguri hans stefndi. „En ég verð alltaf hluti af Ferrari fjölskyldunni,“ sagði hann við blaðamenn. Talið er víst að hann muni síðarmeir taka við starfi hjá Ferrari og hvert það verður, verði tilkynnt í lok keppnistímabilsins eða við upphaf þess næsta.