Michelin endurfinnur upp hjólið

http://www.fib.is/myndir/Active-Wheel_full.jpg
Michelin Active Wheel.

Hjólbarðaframleiðandinn Michelin hefur um nokkurt skeið verið að prófa merkilegt bílhjól sem talið er að geti átt eftir að breyta bílnum verulega í áinni framtíð, gera hann einfaldari í byggingu og léttari. Hjólið nefnist Active Wheel. Hjólin undir frumgerð bílsins Venturi Volage sem sýnd var á bílasýningunni í París á dögunum voru af þessari gerð.

Nýja Active Wheel bílhjólið er með rafmótor til að knýja það áfram, og öðrum minni rafmótor sem stjórnar fjöðruninni. Fjöðrunargormur er inni í því einnig, bremsudiskur og bremsuklossar og beygjubúnaður er í hjólunum að framan. Með því að innbyggja allt þetta í hjólin þarf engan fjöðrunarbúnað til að festa við botnplötu bílsins, ekki er heldur lengur þörf á gírkassa og mismunadrifi, stýrisbúnaðurinn verður miklu einfaldari, þannig að bíllinn verður miklu léttari, efnisminni og auðveldari í byggingu og væntanlega ódýrari og umhverfismildari þar með.http://www.fib.is/myndir/Active-Wheel_full.jpg

Með því að hafa rafmótor í hverju hjóli til að knýja bílinn áfram fæst fjórhjóladrif sem er miklu léttara  og einfaldara en með því að leiða aflið út til hjólanna um öxla, hjöruliði og drifsköft. Sjálfur bíllinn getur þar með hvort heldur sem er verið hreinn rafbíll með rafhlöðum, eða tvinnbíll með ljósamótor eða rafbíll með efnarafal sem breytir vetni í rafstraum.

Þá verður sjálf smíði undirvagns bílsins miklu einfaldari því að á hann þarf einungis að gera traustar festingar fyrir hjólin. Loks verður gólfrými bílsins allt annað og betra en þegar gera þarf ráð fyrir fyrirferðarmiklum fjöðrunarbúnaði og síðan rými fyrir drifsköft, öxla, gírkassa og mismunadrif og þessháttar hluti. Og einmitt vegna þessa skapast miklir möguleikar á að byggja bílinn upp þannig að árekstursþol hans verði meira og ekki þarf að reikna inn í það breytur vegna þungs og flókins hjólabúnaðar, vélar og drifbúnaðar.

Það eru tæknimenn og verkfræðingar Michelin sem upphaflega fengu hugmyndina að hjólinu Active Wheel fyrir um 12 árum. Síðustu árin hefur verið unnið að þróun hjólsins í samvinnu við franska raftæknifyrirtækið Heuliez og bílafyrirtæki sem heitir Venturi. Venturi hefur sérhæft sig í því að byggja rafbíla. Sá sportbíll frá Venturi sem sýndur  var í París á dögunum og var einmitt á hjólunum góðu, hafði tegundarheitið Volage. Auk þess hefur Heuliez byggt frumgerð bíls til daglegra nota sem hefur fengið gerðarheitið Will. Sportbíllinn Volage var byggður í Monaco og þeir sem ekið hafa honum segja að aksturseiginleikar hans séu í sérflokki. Bíllinn sé bæði skemmtilegur og öruggur í akstri og stöðugur svo af ber.

Michelin er stærsta hjólbarðaframleiðslufyrirtæki heims. Það var stofnað árið 1895 af bræðrunum André og Edouard Michelin. Þeir bræður voru fyrstir til að búa til loftfyllta hjólbarða til að setja á þau tréhjól sem voru undir fyrstu bílunum. Síðar fundu þeir upp radíaldekkin sem eru í dag undir langflestum bílum.

http://www.fib.is/myndir/Michelin-undirv.jpg

Undirvagn Venturi Volage með nýju hjólunum frá Michelin.

http://www.fib.is/myndir/Venturi_volage.jpg

Venturi Volage.