Mikil andstaða gegn vegatollamálinu

Sveitarstjórnirnar á þeim stöðum suðvestan- og vestanlands – umbjóðendur þeirra sem vegatollar á umferð til og frá höfuðborgarsvæðinu munu snerta hvað verst mótmæla nú hvert af öðru vegatollahugmyndinni.

 Bæjarstjórn Reykjanesbæjar segir tollahugmyndina hrein og klár svik. Þingmenn hafi lýst því yfir þegar Reykjanesbrautin var tvöfölduð að ekki yrðu lagðir vegatollar á umferð um brautina. Hugmyndirnar nú séu þvert á þau loforð.

Bæjarstjórnin segir að fyrir utan óþægindi og kostnað fyrir íbúa séu vegatollar í reynd nýr skattur á fyrirtæki í Reykjanesbæ sem stundi viðskipti á höfuðborgarsvæðinu auk þess að vera þrándur í götu annarra sem þjónustu sækja til eða frá bænum.

Bæjarstjórn Ölfuss fundaði um málið þann 30 desember sl. Í bókun hennar eftir fundinn segir að auknar álögur á íbúa og atvinnulíf á Suðurlandi í formi vegatolla muni hafa verulega neikvæð áhrif á búsetu, atvinnustig, fasteignaverð, einstaklinga og fyrirtæki á Suðurlandi. Síðan segir orðrétt:
„Nú þegar greiða allir bifreiðaeigendur skatta til ríkisins í formi bifreiða- og eldsneytisgjalda. Með upptöku veggjalda er klárlega verið að tvískatta notendur umræddra vega á meðan aðrir landsmenn greiða ekki sérstaklega fyrir úrbætur á vegakerfinu," Þetta  brjóti gegn jafnræði íbúa landsins og sé í beinni andstöðu við áform sem kynnt hafa verið í áætlunum ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu á sterku höfuðborgarsvæði.
 Bæjarráð Grindavíkurbæjar segir að auknar álögur á íbúa og atvinnulíf á Suðurnesjum í formi vegatolla muni hafa verulega neikvæð áhrif á búsetu, atvinnustig, fasteignaverð og fyrirtæki á Suðurnesjum. Aukinn kostnaður við ferðir milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins muni leiða til þess að íbúar og fyrirtæki á Suðurnesjum sæki í minna mæli atvinnu, þjónustu og verkefni á höfuðborgarsvæðinu. Það muni leiða til aukins atvinnuleysis á svæðinu og lækkandi fasteignaverðs.

Í sama streng hefur bæjarstjórn Vestmannaeyja tekið. Hún mótmælir fyrirhuguðum vegatolli á Suðurlandsvegi  og bendir á að Vestmannaeyingar greiði nú þegar há vegagjöld í formi siglingakostnaðar milli lands og Eyja.

Þá hefur Stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga óskað eftir fundi með Ögmundi Jónassyni, samgönguráðherra vegna fyrirhugaðra vegatolla á Suðurlandsvegi.  SASS bendir á að nú þegar greiða ökumenn sem aka um Suðurlandsveg um einn og hálfan milljarð króna til vegamála í gegnum eldsneytisskatta og þá er ekki tekið með í dæmið bifreiðaskattar og vörugjöld.  Þá fer SASS einnig fram á að fulls jafnræðis verði gætt milli landsbúa hvar ssem þeir búa á landinu og hver svo sem endanleg niðurstaða um fjármögnun í vegakerfinu kunni að lokum að verða.

 Ennfremur hefur fjöldi bloggara tekið til máls um vegatollamálið og sérstök Fésbókarsíða hefur verið opnuð sem helguð er baráttu gegn vegatollunum. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem tjáir sig um málið opinberlega er andsnúinn þessari fyrirhuguðu vegatollainheimtu.