Mikil aukning umferðar á höfuðborgarsvæðinu í apríl

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu í nýliðnum aprílmánuði reyndist ríflega tólf prósentum meiri en í sama mánuði fyrir ári síðan. Aldrei hafa fleiri ökutæki farið um mælisnið Vegagerðarinnar í apríl. Nýtt met hefur þannig verið slegið. Umferðin frá áramótum hefur aukist um fimm prósent að því er fram kemur í tölum frá Vegagerðinni.

Mjög mikil umferð var á höfuðborgarsvæðinu í nýliðnum apríl og mældist hún rúmlega 12% meiri en í sama mánuði fyrir ári síðan. Öll mælisniðin þrjú hækkuðu um tveggja stafa tölu, sem er fáséð en sem þó er helst að vænta í mars og apríl; og þá í kringum páska.

Mælisnið ofan Ártúnsbrekku jókst mest eða um rúmlega 15% en hin tvö sniðin, við Kópavogslæk og Dalveg, jukust um 11%. Allt þetta leiddi til þess að nýtt umferðarmet var slegið í apríl á höfuðborgarsvæðinu. Aldrei áður hafa fleiri ökutæki farið yfir mælisniðin þrjú í apríl mánuði.Núna hefur umferðin aukist um 5% frá áramótum, fyrir lykil mælisniðin þrjú. Þessi aukning er aðeins minni en á síðasta ári, á sama tíma, en þá hafði umferðin aukist um 7,3%.

Mest var ekið á föstudögum, í nýliðnum mánuði, en minnst á sunnudögum. Umferðin á virkum er þó mjög svipuð, það er helst að mánudagar skeri sig úr, en helgarumferð er yfirleitt talsvert minni en á virkum dögum á höfuðborgarsvæðinu.

Mest jókst umferð á föstudögum, borið saman við sama mánuð á síðasta ári, og minnst á mánudögum.