Mikil aukning umferðar á Hringvegi

Umferðin á Hringveginum í febrúar jókst um tæp 16 prósent sem er gríðarlega mikil aukning. Hluti skýringar gæti verið að í fyrra dróst umferðin töluvert saman í febrúar. Umferðin á Hringvegi er nokkuð sveiflukennd en fyrstu tvo mánuði ársins nemur aukningin 10,6 prósentum sem er mjög mikið.

Aldrei hafa mælst fleiri ökutæki, sem ekið hafa yfir 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringvegi, í febrúar en mælaniðurstöður segja að umferðin hafi aukist um 15,8% í nýliðnum mánuði borið saman við sama mánuð á síðasta ári. 

Þessi mikla aukning kemur aðeins á óvart en þess ber þó að geta að á síðasta ári dróst umferðin saman um 2,6% í sama mánuði miðað við árið þar á undan. Mest jókst umferðin yfir teljarasnið á Vesturlandi eða um rúmlega 22% en 1,4% samdráttur varð í umferð um teljarasnið á Austurlandi.

Af einstaka sniðum jókst umferðin mest undir Hafnarfjalli eða um 22,9% en Hvalfjarðargöng fylgja þar fast á eftir með 22,7% aukningu. Þó enn sé of snemmt að segja til um það þá er mögulegt ökumenn séu e.t.v. að nýta sér Hvalfjarðargöng meira eftir að gjaldtöku var hætt.  Mest dróst umferðin hins vegar saman um mælisnið á Mývatnsöræfum eða um 8,9%.

Nú hefur umferðin aukist um 10,6% fyrir teljarasniðin 16, þegar janúar- og febrúarumferð hefur verið lögð saman.  Þetta er mun meiri aukning en á sama tíma á síðasta ári en þá hafði umferðin aðeins aukist um 1,5%.  Hér verður að hafa í huga að vetrarumferð á Hringvegi er afar sveiflukennd milli ára.

Umferð eftir vikudögum milli áranna 2018 og 2019
Það sem af er ári hefur umferðin aukist hlutfallslega langmest á sunnudögum eða um tæp 25% en mikil aukning hefur einnig orðið á föstudögum, þegar umferðin er að jafnaði mest, eða rúmlega 12% aukning.  Það má segja að umferðin hafi staðið í stað á þriðjudögum en 0,1% aukning hefur orðið á þeim dögum.

Þessi mikla aukning á sunnudögum kann að gefa vísbendingu um að aukning ársins sé fyrst og fremst vegna einkaerinda ökumanna og borin uppi af heimamönnum, hvað sem síðar verður þegar lengra líður á árið.