Mikil fjölgun hjálparbeiðna

Gríðarleg aukning hefur orðið í haust í hjálparbeiðnum til FÍB aðstoðar. Mjög athyglisvert er að aðstoðarbeiðnum vegna eldsneytisleysis hefur fjölgað hlutfallslega margfalt meira en beiðnum vegna annarra vandamála eins og straumleysis eða loftlausra hjólbarða. Miklu fleiri virðast þannig vera að keyra á síðustu dropunum og jafnvel gufunni í tanknum, eins og það er stundum orðað. Það er ekki gott mál.

Eins og veður og hitafar hefur verið undanfarna daga og vikur þegar hitastigið rokkar upp og niður í kring um frostmarkið stóraukast líkur á rakamyndun í hálf- og næstum tómum eldsneytistönkunum. Rakinn þéttist og vatnsdroparnir falla síðan niður í eldsneytið og þar sem vatn er eðlisþyngra en bensín og dísilolía sekkur það til botns. Þegar svo frystir frýs þetta vatn í botni tanksins og í eldsneytisleiðslunum og stíflar þær. Þetta vatn veldur því fyrst gangtruflunum en að lokum getur komið að því að bíllinn fer alls ekki í gang.

En þótt ekkert sé nú frostið eða kuldinn, þá er það aldrei gott að „keyra tankinn út.“ Í eldsneytistankinn berast með tímanum margskonar óhreinindi og safnast upp á botni tanksins. Bæði eru þetta óhreinindi sem koma þau úr eldsneytinu sjálfu og eins utanfrá, sem og alls kyns útfellingar. Eldsneytisdælubúnaðurinn í flestum bílum er þannig að þegar yfirborðshæð eldsneytisins er komin niður fyrir tiltekið mark kviknar aðvörunarljós í mælaborðinu um að fylla þurfi á tankinn. En um leið og ljósið kviknar byrjar dælubúnaðurinn að sjúga upp eldsneyti neðar en áður. Þar með eykst hætta á að upp sogist vatn, sandur og annað óæskilegt og berist inn í eldsneytiskerfið og skemmi það  og ýmsa dýra hluti þess eins og spíssa o.fl. Um slíkt eru fjölmörg dæmi.

Af þessum tvennum meginástæðum er best að hafa eldsneytistankinn alltaf sæmilega birgan af eldsneyti. Ágætt er einnig í veður- og hitafari eins og verið hefur að undanförnu að bæta af og til ísvara saman við eldsneytið. Hvorttveggja dregur stórlega úr hættu á vandræðum vegna frosins vatns í eldsneytinu og meðfylgjandi hættu á vandræðum og skemmdum á eldsneytiskerfinu.

En hversvegna fjölgar aðstoðarbeiðnum vegna eldsneytisleysis svona gríðarlega? Ekki er ólíklegt að ástæðan sé að stórum hluta sú að flestir hafa minna handa í milli en áður og eldsneyti hefur aldrei verið jafn dýrt og nú. Það skýtur því illilega skökku við að stjórnvöld skuli nú vilja hækka enn skatta á eldsneytið. Samkvæmt lagafrumvarpi sem nú er til afgreiðslu á alþingi stendur til að hækka frá næstu áramótum kolefnisgjald, vörugjald og olíugjald. Frumvarpið lýsir ótrúlegu sambands- og skilningsleysi á kjörum og aðstæðum fólks og fjölskyldna. FÍB hefur mótmælt harðlega þessum fyrirhuguðu hækkunum og þvert á móti hvatt stjórnvöld og löggjafarvaldið til að fara þveröfuga leið – lækka álögurnar. Er það til of mikils mælst?