Mikil vakning í mengunarmálum í Evrópu

Til að stemma stigu við aukna mengun í mörgum stórborgum Evrópa hefur verið gripið til margs konar ráða. Ein þeirra er að útiloka gamlar bifreiðar sem menga meira en eðlilegt getur talist frá svæðum í og við miðborgir. Borgaryfirvöld í París, London og Stokkhólmi tóku ákvörðun um þetta fyrir tveimur árum og er árangurinn þegar farinn að koma í ljós. Nú hafa borgaryfirvöld í Madríd ákveðið að grípa til sömu aðgerða til að sporna við aukinni mengun sem er töluverð nú þegar.

Mengun í miðborg Madridar gæti minnkað um allt að helming

Í Madríd mega díselbílar af árgerð 2006 eða eldri ekki keyra á ákveðnum svæðum í miðborginni. Bannið n ær líka til bensínbíla sem eru af árgerð 2000 eða eldri. Gangi þessi aðgerð upp er talið að mengun í miðborg Madríd  geti minnkað um allt að helming. Fari bílstjórar mengandi bíla ekki að settum reglum eiga þeir yfir höfði sér háar sektir.

Mikil vakning er í þessum efnum um alla Evrópu og víðar en markmiðið er að minnka mengun eins og kostur er. Töluverð umræða hefur verið í gangi um nokkurt skeið vegna aukinnar loftmengunar frá bílum og hefur í því sambandi komið til umræðu að banna notkun bensín- og díselbifreiða frá árinu 2040. Borgaryfirvöld víða um Evrópu ætla að taka á þessum vanda en loftmengun hefur aukist til muna í stærstu borgum Evrópu. 

Þýska fyrirtækið Bosch sagði frá því á dögunum að það væri á góðri leið með að þróa tækni sem drægi verulega úr mengun frá díselbílum. Fyrirtækið telur að með þessari nýju útblásturstækni ætti ekkert að vera til fyrirstöðu fyrir bílana að aka inn á þau svæði í stórborgum þar sem til stendur að banna þeim að fara um.