Mikil vinna fram undan við þrif á götum víðast hvar

Eins og borgarbúar hafa orðið varir við hefur verið stillt og þurrt veður í borginni í dag og mælist styrkur svifryks og köfnunarefnisdíoxíðs hár auk þess sem há gildi koma fram í mælingum á styrk brennisteinsvetnis. Svipuðu veðri er spáð næstu daga svo gera má ráð fyrir slæmum loftgæðum. Undir kringumstæðum sem þessum er brýnt að þeir sem eru viðkvæmir í öndunarfærunum forðist útivist í nágrenni stórra umferðaæða næstu daga.

Ekki bætir úr skák að götur borgarinnar eru skítugar eftir veturinn. Þá vaknar sú spurning með hvaða hætti Reykjavíkurborga vinnur eftir til að hreinsa göturnar í þeim tilgangi m.a. að sporna við svifrykinu.

Hjalti Guðmundsson, skrifstofustjóri reksturs og umhirðu hjá borginni, segir að hin árlega vorhreinsun hefjist 15. mars. Byrjað verði á stofnbrautum og væri alveg ljóst að mikil vinna væri fram undan hvað þetta verkefni áhrærir.

Notum hvert tækifæri til að hreinsa

,,Við erum á tánum og reynum að nota hvert tækifæri sem gefst til að hreinsa og koma þannig í veg fyrir svifryk. Þetta er viðkvæmt en við getum ekki farið af stað þegar frost er. Við fylgjumst vel með og erum alltaf tilbúnir að gera okkar besta. Samkvæmt veðurspám verða norðanáttir ríkjandi hér á þessu svæði á næstunni og þá er hætt við að svifryk fari yfir mörkin,“ sagði Hjalti Guðmundsson.

Lárus Jónsson eigandi Hreinsitækni sagði að honum hefði fundist tilvalið að hreinsa götur í upphafi vikunnar miðað við framtíðarspár en því miður hefði ekki verið ráðist í það verkefni. Aðfaranótt fimmtudags í síðustu viku fórum við reyndar yfir nokkrar stofnbrautir í borginni. Á meðan þýðan var í gangi gekk þetta vel, við sópuðum eingöngu, en göturnar voru ekki þvegnar. Við fórum um stórar götur en við höfðum aðeins blánóttina til að athafna okkur. Ég hefði viljað sópa hægar en við fórum út til að ná sem bestu.

Bestu skilyrði þurfa að vera fyrir hendi

,,Við höfum ekkert þvegið göturnar fram að þessu en það má ekki vera frost þegar það er gert.Við höfum tekið í notkun nýjan bíl sem getur heilsópað göturnar og þvegið ennfremur. Við þrifum reyndar fyrir Vegagerðinni helstu þjóðvegi í þéttbýli með vatni og eins hér í borginni í kringum áramótin. Tókum Grensásveginn og Háaleitisbrautina og næstu daga þar á eftir var froststilla. Eftir þá aðgerð var ekkert vart við svifryk svo árangurinn var góður. Þegar malbikið er lélegt, rykið og flutningar miklir, þá þarf að halda þessu tækjum úti þegar veðurskilyrði eru til þess. Borgin og Vegagerðin hafa verið í sambandi við okkur og rætt um að rykbinda ákveðnar götur. Svo við getum farið af stað þarf hitastigið að vera +2 gráður,“ sagði Lárus Jónsson.

Hreinsun gatna í Stuttgart

Stórt átak hefur verið í gangi í þýsku borginni Stuttgart við hreinsun gatna. Átakið stóð yfir í um fimm vikna skeið í mars og apríl á sl.ári. Eftir þessa hreinsun kom glögglega í ljós að hún hafði áberandi jákvæð áhrif og styrkur svifryks fór niður úr öllu valdi. Hreinsuninni fór fram á næturnar og var beitt háþrýstiþvottavélum á götur og gangstéttar.

Til að fá betri vísbendingar um áhrif göturyks á fínt ryk hefur verið ákveðið að framkvæma nýja rannsókn sem nær yfir lengra tímabil og fer hún fram yfir köldustu mánuði ársins í Þýskalandi. Eftir þá rannsókn er vonast eftir betri og skýrari mynd á þessu áhugaverða verkefni. Nánar verður sagt frá þessari rannsókn í næsta FÍB-blaði.

Myndin með fréttinni var tekin á gatnamótum Grensásvegar og Miklubrautar í dag og sýnir glöggt loftmengunina. Þarna þyrlast upp setlög sands og ryks frá götum og gangstéttum.  Er ekki kominn tími til að auka hreinsun gatna og sæta lagi þegar veður gefur tækifæri til þess?