Ungmenni séu þátttakendur í stefnumótun og ákvarðanatöku

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ávarpaði síðdegis í gær ráðstefnu YOURS, samtaka ungmenna sem berjast fyrir umferðaröryggi, sem haldin er í Stokkhólmi. Ráðherra tók einnig þátt í vinnustofu þar sem ungmenni og fólk í áhrifastöðum ræddu um leiðir til að efla umferðaröryggi. Vinnustofan sem Sigurður Ingi tók þátt er undanfari og hluti 3. heimsþings um umferðaröryggi sem haldið er í Stokkhólmi næstu daga.

Fjögur íslensk ungmenni sitja ráðstefnuna en yfirskrift hennar útleggst á íslensku „Hingað og ekki lengra. Yfirskriftin vísar til þeirrar kröfu ungmenna um allan heim að stjórnvöld og samfélag taki höndum saman um að fækka alvarlegum slysum og dauðaslysum í umferðinni.

Á ráðstefnunni hafa um 200 ungmenni frá 75 löndum hvaðanæva úr heiminum sagt frá reynslu sinni og baráttumálum. Staðan væri mjög ólík eftir heimshlutum en á heimsvísu látast 500 börn á dag í umferðarslysum. Þátttakendur voru sammála um mikilvægi þess að ungmenni væru þátttakendur í stefnumótun og ákvarðanatöku í umferðaröryggismálum og  að ungt fólk yrði að vera þar í forystu. 

Sigurður Ingi hrósaði ungu fólki og þátttakendum ráðstefnunnar fyrir að taka frumkvæði í baráttunni fyrir bættu umferðaröryggi. Breyta þurfi hugarfari og umferðarmenningu um heim allan og þar muni ungt fólk verða öflugustu málsvararnir. Ráðherra sagði stefnu íslenskra stjórnvalda mjög skýra. Öryggi væri leiðarljós í samgönguáætlun landsins og liggi til grundvallar í allri stefnumótun, aðgerðaáætlun og framkvæmdum til að tryggja öryggi allra vegfarenda í umferðinni.

Ráðherra sagði frá góðri reynslu stjórnvalda að auka samráð og samstarf við ungt fólk við stefnumótun. Fulltrúar ungmenna hafi verið á samgönguþingi unga fólksins og nú væri í fyrsta sinn unnið með börnum og ungmennum við mótun nýrrar samgönguáætlunar. Einnig hafi ráðstefna sem haldin var í haust um börn og samgöngur með þátttöku ungmenna haft mikla þýðingu, sem ráðuneytið stóð að í samvinnu við Samgöngustofu, Vegagerðina og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Á fundinum í dag var það kunngert að Evrópski fjárfestingabankinn, EIP, væri genginn til samstarfs við þrjú félagasamtök sem leiða vegamatsáætlanir (RAP) sem hluta af alþjóðlegu átakinu til að fækka verulega dauðsföllum og alvarlegum slysum á heimsvísu fyrir árið 2030.

EIB og Evrópska vegamatsáætlunin (EuroRAP), alþjóðlega vegamatsáætlunin (iRAP) og umferðaröryggisstofnunin (RSF) ætla að taka höndum saman og styðja sérstaklega fjárfestingar í uppbyggingu á bættum og  öruggari vegu.

Ferry Smith, stjórnarformaður EuroRap, sagði eftir undirritunina samstarfið gríðarlega ánægjulegt og stórt skref í þá átt að bæta umferðaröryggi í Evrópu og um allan heim. Í þessu felst mikil áskorun og allir munu leggjst á eitt að ná settum markmiðum.

Lilyana Pavlova, varaforseti EIB hópsins, sagði þetta stóran dag með það að markmiði að bæta umferðaröryggi um allan heim. Mikilvægt er að geta sótt nauðsynlega ráðgjöf, þjálfun og færni til að þróa öruggara vegi og efla innviði.