Miklar framkvæmdir á Kringlumýrabraut í sumar

Skrifað hefur verið undir verksamninga vegna uppbyggingar nýrrar strætóreinar á Kringlumýrarbraut. Framkvæmdum á að ljúka í ágúst. Markmiðið er að strætisvagnar komist leiðar sinnar á þessum kafla, óháð annarri umferð.

Verkið felst í uppbyggingu á nýrri forgangsrein fyrir strætó á 400 metra kafla á Kringlumýrarbraut, milli Háaleitisbrautar og Miklubrautar, vestan megin á götunni, með akstursstefnu í suður, uppbyggingu á nýrri akrein fyrir bíla, auk þess sem miðeyja verður minnkuð og endurgerð til að skapa pláss fyrir nýja akrein. Girðing á miðeyjunni verður fjarlægð og í staðinn sett upp vegrið. Allar akreinar á þessum kafla verða fræstar og malbikaðar upp á nýtt. Einnig þarf að taka niður og færa til ljósastaura.

Nýjar strætóstöðvar verða reistar sitt hvoru megin við Háaleitisbraut. Ráðgert er að strætóleið 4 taki breytingum og aki beina leið eftir Kringlumýrarbraut þegar forgangsreinin verður tilbúin. Ferðatími strætófarþega mun styttast um 4-5 mínútur án þess að hafa áhrif á ferðatíma annarra ökutækja.

Vegum ekki lokað á framkvæmdatíma

Lagt er upp með að framkvæmdir standi yfir sumartímann áður en umferð eykst aftur eftir sumarfrí. Búast má við umferðartöfum meðan á framkvæmdum stendur. Loka þarf einni akrein í suðurátt stóran hluta af framkvæmdatímanum og á meðan verður aðeins ein akrein í suðurátt opin. Einnig þarf að loka einni akrein í norðurátt meðan unnið er við að minnka miðeyjuna. Vonast er til að vegfarendur sýni þessu skilning og þolinmæði. Áætluð umferð á Kringlumýrarbraut á þessu svæði er um 30.000 ökutæki/sólarhring samanlagt í norður- og suðurátt.

Vegagerðin, Betri samgöngur, Reykjavíkurborg og Strætó vinna saman að þessu verkefni, sem er fjármagnað af Samgöngusáttmálanum.