Milljarða sparnaður Oslóborgar af raf-strætisvögnum

Samkvæmt skýrslu frá Siemens og Volvo mun Oslóborg spara verulega á því að skipta út dísil- og brunahreyfilsknúnum strætisvögnunum og byrja að nota rafknúna vagna í þeirra stað. Jafnframt mun andrúmsloftið batna verulega – bókstaflega.  

Það er reyndar á áætlun yfirvalda Oslóborgar að enginn einasti strætisvagn í borginni skuli enn ganga fyrir jarðefnaeldsneyti þegar árið 2020 gengur í garð. Til að ná því markmiði þarf ýmist að endurnýja hundruð vagna og breyta öðrum þannig að þeir gangi fyrir lífrænu eldsneyti af ýmsu tagi, sem og rafmagni að einhverju leyti. Gert er ráð fyrir að í stað dísilolíunnar einnar komi fleiri gerðir orkugjafa, t.d. lífdísilolía af ýmsu tagi og metangas. Umskiptin verða fyrirsjáanlega mjög kostnaðarsöm fyrir Oslóborg, en það er hægt að minnka kostnaðinn verulega með því að velja rafmagnsvagna eingöngu.

Niðurstaða skýrsluhöfunda Siemens/Volvo er sú að með því að skipta öllum vögnunum út fyrir rafknúna strætisvagna geti borgin sparað milljarð norskra króna. „Niðurstaða okkar er skýr: Rafmagnsvagnar eru lang hagkvæmasta tæknin sem völ er á,“ segir Lars Andresen framkvæmdastjóri Siemens í Noregi í fréttatilkynningu.  

Rannsókn Siemens/Volvo náði til 64 strætisvagnaleiða um miðborgarsvæði Oslóborgar. Á þeim aka samtals 460 strætisvagnar á hverjum sólarhring. Verði tvíorkuvagnar (brunahreyfill – rafhreyfill) valdir til að leysa núverandi dísilvagna af hólmi mun borgin spara 750 milljónir NKR á 10 ára tímabili. En verði rafmagnsvagnar valdir í stað brunahreyfilsknúnu bioetanólvagnanna sem ætlunin er að kaupa, þá mun sparast milljarður NKR, hvorki meira né minna.  „Þrátt fyrir að rafmagnsvagnarnir séu enn sem komið er dýrari í innkaupum en brunahreyfilsvagnarnir þá eru þeir miklu hagkvæmari. Meginástæðan er sú að raforkan er miklu ódýrari en dísilolía nútímans og allar gerðir lífræns eldsneytis. Þar við bætist að orkunýting rafmótoranna er miklu betri en brunahreyflanna. Rafmagnsstrætisvagninn kemst þrisvar- til fjórum sinnum lengri vegalengd á sama orkumagni og vagn með brunahreyfli kemst,“ segir Lars Andersen ennfremur.

Rafmagnsstrætisvagnar sem sækja orkuna beint í raflínur yfir akstursleiðum þeirra hafa verið í notkun víða í áratugi. Nútímavagnar eru hins vegar með rafhlöðum og eru óháðir loftlínum. Tvær megingerðir nútíma rafvagna fyrirfinnast: Annarsvegar eru það vagnar með stóra rafhlöðusamstæðu sem geymir nógan straum til notkunar allan daginn. Þeir eru síðan hlaðnir yfir nóttina og eru fullhlaðnir að morgni þegar notkun hefst.

Hinsvegar eru svo vagnar með mun minni rafhlöðusamstæðu. Á leiðum sínum fara þeir af og til í gegn um hraðhleðslustöðvar sem bæta á geymana, t.d. á endastöðvum og tímajöfnunarstöðvum. Á þessa rafvagna veðjar Volvo um þessar mundir og er að hefja stórframleiðslu á þeim frá og með næsta hausti. Sölustjóri rútubíla- og strætisvagnaframleiðslu Volvo, Svenn-Åge Løkken segir að hraðhleðsla á endastöð sé hagkvæmari en stór rafgeymasamstæða og næturhleðsla. Hraðhleðslustöðvarnar nýtist mörgum vögnum yfir daginn og hleðslutíminn sé einungis fáeinar mínútur. Vagnarnir komist af með mun minni, léttari og ódýrari rafgeymasamstæðu sem þýði það að vagninn sé mest í því að rúnta með fólk en ekki rafgeyma.

Þessi búnaður, bæði vagnar og hraðhleðslubúnaður er þegar kominn í fulla notkun á strætisvagnaleiðum í Stokkhólmi, Gautaborg og Hamborg í Þýskalandi. Reynslan af búnaðinum er góð en hleðslutíminn sem ræðst nokkuð af lengd akstursleiðar hefur reynst vera að meðaltali sex til átta mínútur. En þrátt fyrir það hefur í fæstum tilfellum þurft nema lítillega að breyta tímaáætlunum vagnanna frá því sem var þegar dísilvagnar óku á sömu leiðum. Átta af hverjum tíu tímaáætlunum er óbreyttar síðan þá.

Athugunarefni fyrir Strætó?

Oft verður þess vart að útlendingar öfunda Íslendinga af fallvötnunum og því að geta framleitt alla þessa mikla raforku á sjálfbæran hátt. Framámaður í heimssamtökum bifreiðaeigenda- og ferðafélaga sagði í heimsókn sinni hér á landi fyrir nokkrum árum að Ísland ætti með réttu að vera land hinna rafvæddu samgangna. Hann taldi að rafvæðing strætisvagnakerfisins og leigubílaflotans á höfuðborgarsvæðinu yrði mjög hagkvæm aðgerð og verða auk þess höfuðborgarsvæðinu og þjóðinni allri mjög til álitsauka.