Minni ívilnanir vegna rafbíla muni draga úr eftirspurn

Fyrirhugaðar breytingar á ívilnunum vegna kaupa á rafbílum munu hafa í för með sér að þær munu aðeins eiga við bíla sem eru nýskráðir hér á landi. Þetta kemur fram í bréfi lögmanns bílainnflytjanda en þar segir meðal annars að með breytingunum sé gert upp á milli stærri bílaumboða og smærri söluaðila á markaðinum. Morgunblaðið fjallar um málið í dag.

Í viðtali við Runólf Ólafsson, framkvæmdastjóra Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, kemur fram að hann gerir ráð fyrir að minni ívilnanir vegna rafbíla muni draga úr eftirspurn.

„Margir munu velta því fyrir sér hvort það borgi sig að kaupa rafbíl miðað við sína akstursþörf og notkun. Það eru ekki allir drifnir áfram af umhverfissjónarmiðum við kaup á rafbíl. Þetta er stór útgjaldaliður þannig að fólk þarf að huga að ýmsu öðru. Boðaðar breytingar gætu haft í för með sér að það verði ekki lengur hagkvæmt fyrir marga aðila að fara í orkuskipti. Maður heyrir að margir séu svolítið tvístígandi með að fara í þessi umskipti út af þessu,“ segir Runólfur.

Annars vegar sé rætt um að hætta endurgreiðslu á virðisaukaskatti á rafbíla allt að 1.320 þúsundum en taka í staðinn upp styrki úr Orkusjóði. Hins vegar sé boðað að leggja á 6 króna kílómetragjald á rafbíla um áramótin. Þótt endanleg útfærsla liggi ekki fyrir sé ljóst að dregið verði úr niðurgreiðslum á rafbílum til almennings.

„Á þessum tímapunkti höfum við að sjálfsögðu áhyggjur af því að það dragi úr áhuga almennra kaupenda á rafbílum,“ segir Runólfur. Girðingar hindra sölu Að ýmsu sé að hyggja þegar ívilnanir vegna rafbíla eru endurskoðaðar. Meðal annars hafi komið upp vandamál vegna rafbíla sem eru forskráðir erlendis. Rafbílar þurfi að vera nýskráðir á Íslandi til að vera styrkhæfir. „Það er verið að leita lausna um hvernig eigi að höndla ökutæki sem hafa verið forskráð erlendis. Allar girðingar geta verið erfiðar þegar fólk er í þessum hugleiðingum. Þetta gæti hindrað að hingað kæmu tæki og tól sem væru hugsanlega á hagstæðu verði.“

Þá vekur Runólfur athygli á að nýir rafbílar hafi jafnan verið í dýrari kantinum og því ekki á færi tekjulægri hópa. Ástæðan sé ekki síst hærri framleiðslukostnaður en á hefðbundnum bílum.

„Verð rafbíla fer hins vegar lækkandi og samkeppnishæfnin gagnvart hefðbundnum brunahreyfilsbílum er alltaf að styrkjast. Það mun væntanlega gera fleirum kleift að fjárfesta í rafbíl. Hins vegar er sá tími ekki kominn og við teljum því að farið sé of bratt í boðaðar breytingar,“ segir Runólfur. Þótt FÍB taki í meginatriðum undir þau áform að innheimta kílómetragjald af rafbílum og tengiltvinnbílum til að tryggja framlag þeirra til uppbyggingar, viðhalds og reksturs vegakerfisins þá staldri samtökin við áform um að leggja á 6 króna kílómetragjald á rafknúna fólks- og sendibíla, óháð þyngd og orkuþörf ökutækjanna.“

„Það eru rafbílar á markaði sem eru ríflega eitt og hálft tonn og svo eru rafbílar sem eru þrjú og hálft tonn og geta dregið eftirvagn. Með því getur samanlögð þyngd verið á sjötta tonn. Það verður því sama gjald á km sem er ekki í samræmi við að taka gjald vegna notkunar og slits á vegum. Þannig að við höfum lagt til viðmiðanir sem byggðust á þyngd og koldíoxíðslosun.

Runólfur segir FÍB sakna þess að stjórnvöld skuli ekki hafa meira samráð vegna fyrirhugaðra breytinga.

„Við erum félagasamtök með yfir 20 þúsund félagsmenn. Það er skortur á samráði og það er ekki góð stjórnsýsla að leggja fram svona tillögur á síðustu metrunum sem hafa veruleg áhrif á afkomu heimilanna,“ segir Runólfur Ólafsson í samtali við Morgunblaðið.