Minni, léttari, sparneytnari, ódýrari

Reynsluökumenn Volkswagen hafa verið að aka reynslubílum af næstu kynslóð jeppans VW Touareg í „dularklæðum“ hingað og þangað um heiminn að undanförnu. En nú hafa náðst myndir af bílnum og í ljós kemur algerlega endurnýjaður jeppi, 30 sm styttri en sá gamli, 300 kílóum léttari, verulega sparneytnari og síðast en ekki síst umtalsvert ódýrari.

 Ljósmyndarar frá Automedia náðu mynd af bílnum gersamlega ódulbúnum í gær í Portúgal eldsnemma að morgni En áður hafa ástralskir ljósmyndarar náð af honum myndum og er sú sem hér birtist frá þeim komin. Myndirnar sýna að lausafregnir um minni og léttari Touareg eru dagsannar. Það virðist því vera svo að dagar stóru, þungu eyðslufreku lúxusjeppanna séu að verða taldir. Öld sparneytninnar sé að renna upp, enda má allt eins búast við mjög háu eldsneytisverði næsta sumar, jafnvel hærra en í fyrra. Hér á Íslandi er þetta talsvert fyrirkvíðanlegt þar sem verið er að leggja mjög aukna skatta á eldsneytið hér á landi.

 Ný kynslóð af Porsche Cayenne er einnig á prófunarstigi og á leið í framleiðslu. Cayenn og Touareg eru þróaðir í náinni samvinnu VW og Porsche og verða mjög áþekkir bílar með svipaðar vélar og drifbúnað. Dýrustu gerðirnar verða með V8 bensínvélum hjá báðum en fregnir herma að Touareg verði auk þess fáanlegur með amk. tveimur minni gerðum bensínvéla og amk. tveimur gerðum dísilvéla. Önnur dísilvélanna verði sú sama og þegar er þekkt í Audi – V6 vél með túrbínu. Þá verði nýi Touareg einnig seldur sem tvinnbíll í Bandaríkjunum.

 Fjöldaframleiðsla á Volkswagen Touareg hefst um mitt næsta ár. Hann verður fáanlegur með miklum lúxusbúnaði auk þess sem einfaldari gerðir verða einnig byggðar.