Minni mengun frá bílaumferð

The image “http://www.fib.is/myndir/Umf1950.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.  The image “http://www.fib.is/myndir/Umf2005.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Bílaumferðin árið 1950 var aðeins 1/10 umferðarinnar nú en hún mengaði ámóta mikið.
Þeim fækkar stöðugt í umferðinni bílunum sem eru án alls mengunarvarnabúnaðar og mengun frá bílaumferðinni minnkar að sama skapi. Loftmengun frá bílaumferð í Svíþjóð er nú orðin svipuð og hún var um 1950. Frá þessu er greint í sænska Auto Motor & Sport.
Árið 1989 varð það skylda að allir nýir bensínknúnir bílar í Svíþjóð yrðu framvegis búnir efnahvarfa til að hreinsa útblásturinn frá vélinni. Eðli máls samkvæmt hafa eldri bílar gengið úr sér og um síðustu áramót voru gamlir bílar án hreinsibúnaðar orðnir 12% bílaflotans, sem er nokkuð hátt hlutfall. En þar sem gömlu bílunum með engan hreinsibúnað er oftast ekið á mun styttri vegalengdum en þeim nýrri, er talið að þessi 12% standi að um það bil þremur prósentum af bílaumferðinni í Svíþjóð. Hlutur þeirra gömlu hefur þannig minnkað verulega í seinni tíð, því að fyrir þremur árum var hlutur þeirra í umferðinni talinn vera 10%.  
Útblástur skaðlegra efna frá umferðinni er á stöðugri niðurleið og er í Svíþjóð orðinn svipaður og hann var um 1950 þegar fjöldi bíla var um einn tíundi hluti bílaflotans í dag. Sömuleiðis er eyðing og endurvinnsla gamalla bíla í dag miklu hraðari og markvissari en áður og ekki mun líða á löngu uns einu bílarnir án hvarfahreinsibúnaðar verði fornbílar – safngripir.
Hvarfahreinsibúnaður eyðir um 95% af köfnunarefnissamböndum og kolmónoxíði úr útblæstri bíla en erfiðara hefur reynst að draga úr myndun koldíoxíðs, sem í raun tengist beint því magni eldsneytis sem vélarnar brenna. Því er mesta áherslan nú lögð á það að draga úr eldsneytiseyðslu stórra bíla, bæði vörubíla og rútubíla. Það er vissulega full ástæða til þess því að sænski vörubíla-, strætisvagna- og rútubílaflotinn (samtals 400 þúsund farartæki) blæs frá sér meira magni koldíoxíðs heldur en allur fólksbílaflotinn í landinu (4 milljónir bíla).