Minni og hagkvæmari bílar

 Segja má að grár veruleikinn verði í forgrunni á bílasýningunni í Genf sem senn hefst. Á þessari sýningu er löng hefð fyrir því að bílaframleiðendur tjaldi öllu sínu til og sýni allt það nýjasta sem þeir hafa í boði og er væntanlegt. Á sýningunni í fyrra voru alls kyns kraftabílar og lúxusbílar áberandi þrátt fyrir að kreppa væri runnin upp í bílaiðnaðinum. Aðra og þveröfuga sögu verður að segja nú.

Flestar þeirra 25 nýjunga sem frumsýndar verða á sýningunni eru undir merkjum sparneytni og hagkvæmni og meira í ætt við raunveruleikann en drauminn um meiri hraða, meira afl, meiri lúxus. Meira að segja lúxusframleiðendur eins og Ferrari og Porsche ætla nú að sigla á grænu bylgjunni. Nýju bílarnir eru að verða minni og sparneytnari. Dæmi um það er t.d. nýr Volkswagen Touareg og nýi smábíllinn Audi A1.

Hér er listi yfir þær nýjungar sem mun gefa að líta á Genfarsýningunni:

Frumsýningar:

BÍLAR SEM TILBÚNIR ERU Í FJÖLDAFRAMLEIÐSLU

• Alfa Romeo Giulietta hlaðbakur

• Aston Martin Cygnet rafknúinn smábíll

• Audi A1 smábíll

• Bentley Continental Supersports blæjubíll

• Ford C-Max lítill fjölnotabíll

• Ford Grand C-Max fjölnotabíll

• Ferrari 599 tvinn-sportbíll

• Kia Sportage jepplingurr

• Lexus CT 200h tvinn-hlaðbakur

• Mazda Mazda5 meðalstór fjölnotabíll

• Mini Countryman jepplingur

• Mitsubishi ASX jepplingur

• Nissan Global meðalstór fólksbíll

• Nissan Juke jepplingur

• Opel Meriva lítill fjölnotabíll

• Porsche Cayenne jeppi

• Renault Megane blæjufólksbíll

• Renault Wind lítill 2ja manna sportbíll

• Volkswagen Sharan fjölnotabíll

• Volkswagen Touareg jeppi

• Volvo S60 4-door „coupe“ fólksbíll

HUGMYNDARBÍLAR

• Audi A8 tvinn fólksbíll

• BMW ActiveHybrid 5 fólksbíll

• Mercedes-Benz CLS fólksbíll

• Opel Flextreme GT/E tengiltvinnbíll

  ALFA ROMEO

 

Hin nýja Giulietta frá Alfa er hlaðbakur. Þetta er fyrsti bíllinn hjá Fiat sem byggður er á nýjum undirvagni fyrir meðalstóra bíla. Þessi undirvagn verður líka í Chrysler, Jeep og Dodge bílum sem byggðir verða í Bandaríkjunum frá  2012 og 2013. Giulietta kemur á Evrópumarkað í vor og leysir af hólmi 147 gerðina sem kom fyrst fram árið 2000.

 AUDI

http://www.fib.is/myndir/AudiA1.jpg

Audi frumsýnir í Genf nýja smábílinn A1 og frumgerð flaggskipsins A8 sem tvinnbíl. A1 er einskonar lúxus- smábíll en þó mjög sparneytinn. Honum er einkum ætlað að etja kappi við Mini sem er í eigu BMW. A1 verður fyrst í stað á Evrópumarkaði einvörðungu en næsta kynslóð eða uppfærsla bílsins verður einnig markaðssett í Bandaríkjunum. Einhver ár eru þó í það.

 BMW

Nýjasta uppfærsla 5 línunnar kemur á Evrópumarkað í næsta mánuði. Í Genf verður sýndur sem hugmyndarbíll BMW 5 sem tvinnbíll sem kallast ActiveHybrid 5  kemur á markað á næsta ári.

CHRYSLER

Chrysler og Lancia verða með sameiginlega kynningu á Genfarsýningunni en sýna þó ekki neina nýja bíla. Sergio Marchionne forstjóri Fiat og Chrysler hefur áður sagt að fjórar gerðir Chryslerbíla verði fluttar inn í Evrópu frá Bandaríkjunum og seldar undir merkjum Lancia á Ítalíu en sem Crysler annarsstaðar í Evrópu frá og með næsta ári. Þeir Chryslerbílar sem hér um ræðir eru Sebring stallbakur og blæjubíll, Town & Country fjölnotabíll og 300C fólksbíll.

 FERRARI

Ferrari ætlar að sýna sportbílinn 599 sem tvinnbíl.  Ítalskt bílablað greinir frá því að bíllinn verði með líþíum rafgeyma og rafmótor. Miðað við venjulegan Ferrari 599 sem er með V12 bensínvél verði eyðsla tvinnútgáfunnar 35 prósentum minni.

 KIA

Hin nýja kynslóð jepplingsins Kia Sportage er ekki eins jeppaleg í útliti og gamla gerðin og bæði lengri og breiðari en jafnframt lægri í loftinu.  Þá er innanrými sagt mun meir en áður. Hinn nýi Sportage kemur á heimsmarkað síðar á árinu.

 LEXUS

Lexus mun frumsýna nýja gerð sem heitir CT 200h. Þetta er lítill hlaðbakur með tvinn-vélbúnaði svipaðrar gerðar og þekkt er hjá Prius. Þessum nýja Lexus er ætlað að keppa við tvinnútgáfur Audi A1 and BMW 1 þegar þær koma fram. Talsmenn Lexus segja að CT 200h sé fyrsti tvinnbíll heimsins í þessum stærðarflokki bíla. Hann verður og ódýrasti Lexusinn í Evrópu.

 MAZDA

Hinn nýi Mazda5 sem frumsýndur verður í Genf verður mun sparneytnari en eldri gerðin. Jafnframt er hann fyrsta Mazdan sem er útlitshannaður eftir svokallaðri Nagare hönnunarlínu. Sala í Evrópu hefst næsta haust og í Bandaríkjunum snemma á næsta ári.

 MERCEDES-BENZ

Benz sýnir nýjan CLS hugmyndarbíl sem eiginlega er blanda af lúxus-fólksbíl og fjölnotabíl, með rennihurð á hliðum.

 MINI

http://www.fib.is/myndir/Minijeppi.jpg

Jepplingurinn Countryman er fjórða undirgerð þessa vinsæla bíls og fyrsti fjögurra dyra Mini bíllinn. Bíllinn er með sítengdu fjórhjóladrifi og með honum vill BMW ná til nýs kaupendahóps sem hingað til hefur ef til vill ekki haft sérstakt auga á Mini.  Mini Countryman verður í boði með þremur gerðum bensínvéla og tveimur dísilvélargerðum.

 MITSUBISHI

Mitsubishi's ASX er lítill jepplingur sem hefur verið í boði á heimamarkaðinum en þar heitir hann RVR. Sala á ASX hefst snemmsumars í Evrópu og í Bandaríkjunum með haustinu.

 NISSAN

Við höfum áður segt frá Juke jepplingnum frá Nissan. Með honum vill Nissan bjóða kröftugan og sportlegan tví- eða fjórhjóladrifinn bíl sem valkost við  sportlega og aflmikla smábíla.

Juke verður sá minnsti af þremur jepplingum Nissans sem eru Murano sem er stærstur og Rogue. Sala á Juke hefst í Japan í sumar og í septemberlok í Evrópu og Bandaríkjunum. Auk Juke frumsýnir Nissan í Genf nýjan Micra. Micran verður ódýr smábíll sem í Bandaríkjunum verður boðinn á um 10 þúsund dollara.

 PORSCHE

Porsche sýnir tvinnútgáfu sportbílsins 911 GT3 R í Genf. Í bílnum eru tvö kasthjól í stað rafgeyma. Hreyfiorka bílsins skilar sér í auknum hraða kasthjólanna. Hreyfiorka kasthjólanna sem er allt að 60 kW skilar sér síðan inn í aksturinn sem viðbótarafl þegar gefa þarf í.  Auk þessa bíls verður frumsýnd ný kynslóð Cayenne jeppans sem bæði er minni og léttari en sú eldri og verður fáanleg með tvinn-vélbúnaði.

 VOLKSWAGEN

http://www.fib.is/myndir/VWTouareg.jpg

Volkswagen frumsýnir nýja kynslóð Touareg jeppans sem fáanleg verður með tvinn-vélarbúnaði. Það sem mesta athygli vekur er það að nýja gerðin er minni, léttari og lægri en sú eldri og því sparneytnari.

 VOLVO

Volvo vonast til að ný kynslóð S60 veiti bæði BMW og Audi bílum af svipaðri stærð harða keppni, harðari en áður. Hinn nýi S60 er fjögurra dyra hlaðbakur og mjög líkur þeirri frumgerð sem sýnd var í Detroit 2009.

http://www.fib.is/myndir/VolvoSs40.jpg