Minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa haldinn í þriðja skipti

Í gær fór fram alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa líkt og sagt var frá í frétt á FÍB vefnum fyrir helgi.  Sameinuðu þjóðirnar hafa frá árinu 1993 hvatt aðildarlönd sín til að minnast þeirra sem látast í umferðinni þriðja sunnudag í nóvember árlega. Undanfarin 3 ár hefur verið haldin minningarathöfn við Bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi.  Athöfnin í gær var ekki aðeins til að minnast þeirra sem látist hafa heldur einnig til að heiðra þær starfstéttir sem koma að björgun og aðhlynningu fólks sem lendir í umferðarslysum. Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti á þyrlupalli Bráðamóttökunnar og síðan var ökutækjum viðbragsaðila, lögreglu, súkraliðs, slökkviliðs og björgunarsveita stillt upp við þyrluna.

http://www.fib.is/myndir/minningardagur%202013-2.jpg

Starfshópur innanríkisráðuneytisins um áratug aðgerða í umferðaröryggismálum hefur haft veg og vanda að minningardeginum í samvinnu við viðbragðsaðila.  Fulltrúi FÍB í starfshópnum er Ólafur Kr. Guðmundsson varaformaður

Innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, hélt erindi og lagði áherslu á að um leið og við minnumst fórnalamba umferðarinnar þá verðum við að huga að þeirri ábyrgð sem við berum sem þátttakendur í umferðinni. Ráðherra fjallaði um framkomna hugmynd um sérstakan minnisvarða um þá sem látist hafa í umferðinni.  Hanna Birna sagði að ætlunin væri að taka þá hugmynd lengra og kynna hana fyrir Reykjavíkurborg þannig að vonandi verði hægt að finna slíkum minnisvarða stað innan borgarlandsins þar sem aðstandendur gætu komið saman á degi sem þessu. Að loknu erindi sínu bað ráðherra viðstadda um að lúta höfði og votta þeim sem látist hafa virðingu sína með einnar mínútu þögn.

Næstur tók til máls Ólafur Ingvar Guðjónsson sem fyrir 15 árum varð valdur að dauða ungrar móður er hann ók undir áhrifum áfengis framan á bíl sem hún var í. Ólafur sagðist oft sinnis hafa orðið vitni af því að menn töluðu um ölvunarakstur eins og það væri eitthvað til að stæra sig af og jafnvel henda gaman af því. Ólafur sagði að breyta þyrfti þessum hugsunarhætti því það sé ekkert gamanmál að aka undir áhrifum. Afleiðingarnar af því séu oft á tíðum skelfilegar líkt og hann gæti sjálfur hvað best vitnað um.

Ellen Björnsdóttir hjúkrunarfræðingur á Bráðamóttöku Landspítalans flutti erindi og sagði m.a. frá því að þrátt fyrir langa reynslu í því að hjúkra og annast slasaða og aðstandendur þeirra væri aldrei hægt að venjast þessu. Ekki væri hægt að koma sér undan þeim tilfinningum sem kvikna þegar fólki sem verður vitni af þeim hörmungum sem umferðarslys valda. Þær hugsanir og tilfinnignar skildi maður ekki eftir í vinnunni. Ellen sagði jafnframt frá því mikilvæga starfi sem starfsfólk Bráðamóttökunnar sinnir í að hlúa að aðstandendum bæði fórnarlamba og eins þeirra sem valda slysunum en oft væri ekki síður mikilvægt að hlúa að andlegri líðan þeirra.

Á þessu ári hafa 12 einstaklingar látist í umferðinni á Íslandi og á hverjum sólarhring deyja u.þ.b. 4.000 manns í umferðarslysum í heiminum.

http://www.fib.is/myndir/Minningardagur-9352.jpg

Upplýsingar og myndir Einar Magnús Magnússon Umferðarstofu.