Misdýr aðgangskort að evrópskum borgum

Það er kannski eins gott að lesa vel smáa letrið áður en keypt er svokallað borgarkort eða CityCard, sem gefur aðgang að markverðum stöðum og að almannasamgöngukerfum borganna. Umtalsverður munur er frá einni borg til annarrar á því hversu víða kortið gildir og hversu arðsamt það yfirleitt er að kaupa  borgarkortið. Euro Test, stofnun bifreiðaeigendafélaganna, hefur borið saman borgakort 16 evrópskra borga og þar sýnir það sig að bestu kaupin eru í Wiener-Karte sem gefið er út í Vínarborg í Austurríki.

Með útgáfu borgakortanna er leitast við að safna saman aðgangi að söfnum og ýmsum markverðustu stöðum borganna sem og að almannasamgöngukerfum þeirra. Borgarkortinu er þannig ætlað að auðvelda ferðafólki að líta augum það markverðasta sem borgirnar hafa upp á að bjóða en vera jafnframt einskonar viðskiptavaki fyrir það um leið. Mjög er þó misjafnt hversu mikill afsláttur er fólginn í einstökum þáttum sem borgarkortið nær til og hversu langt er hægt að komast á kortinu með almannasamgöngutækjunum. Skynsamlegt er því að kanna vel hvað er í boði og hvort það yfirleitt borgi sig að kaupa sér borgarkort. Það er nefnilega alls ekki víst að svo sé, eins og þessi könnun Euro Test reyndar staðfestir.

Þarfir og áhugi manna er misjafn og því skynsamlegt að skoða vel  hvort þau söfn og merkisstaðir og sem í boði eru og samgöngur til þeirra, séu yfirleitt innan manns eigin áhugasviðs. Annars er líklegt að verið sé að borga fyrir eitthvað sem aldrei nýtist.  Sum borgarkort veita ótakmarkaðan frían aðgang að almannasamgöngukerfi viðkomandi borga og frían aðgang að flestum söfnum og áhugaverðum stöðum á gildistíma kortsins. Önnur veita einungis afslátt af verði aðgöngumiða  að söfnum og áhugaverðum stöðum og gilda sem fríkort á takmörkuðum hlutum almannasamgöngukerfanna.

Þessi rannsókn Euro Test tók til 16 borgarkorta sem útgefin eru í 14 evrópskum stórborgum. Ekkert þeirra náði hæstu einkunn sem er „Mjög gott“ og er táknuð með dökkgrænum lit og ++. Ekkert fékk heldur lægstu einkunn sem er „Mjög ábótavant“ og er táknuð með -- og rauðum lit. Borgarkortið Wien Card í Vínarborg reyndist best. Á hæla þess kom hið norska Oslo Pass og síðan hið slóvenska Urbana Ljubljana Tourist Card. Einkunn þessara þriggja efstu var einkunnin „Gott“ sem táknuð er + og ljósgrænum lit.

Lang flest kortanna fengu einkunnina „ í meðallagi“ sem táknuð er með o og gulum lit.  Einkunnina „Ábótavant“ (táknuð með – og brúnum lit) fengu Berlin CityTourCard, The Paris Pass og The Berlin Pass. Þriðja Berlínarkortið; Berlin Welcome Card er hins vegar í flokki hinna meðalgóðu korta

Vínarkortið Wien Card sem er í efsta sætinu er næst ódýrasta kortið í könnuninni. Aðeins Zagreb Card kortið er ódýrara. Zagreb kortið er raunar þannig verðlagt að ef ætlunin er að nota almannasamgöngur borgarinnar að einhverju marki, þá borgar sig að kaupa kortið og nota það eingöngu þar á gildistíma þess.

 

Evrópuborgarkort