Mitsubishi Motors hættir í Dakar Rallinu

http://www.fib.is/myndir/Dakar-Lancer.jpg

Mitsubishi Lancer bíll Nani Roma í Dakarrallinu í janúar sl.


Mitsubishi Motors Corporation (MMC) í Japan sendi frá sér tilkynningu fyrr í dag um að fyrirtækið taki ekki oftar þátt í Dakar rallinu eða í torfæruralli yfirleitt (Cross Country Rally).

Þetta eru nokkur tíðindi því að Mitsubishi hefur sent lið til keppni í Dakar rallinu alls 26 sinnum, sigrað 12 sinnum þar af sjö sinnum í röð. Enginn bílaframleiðandi hefur áður átt þvílíku gengi að fagna í þessari erfiðu keppni.

Í fréttatilkynningu Mitsuhishi segir að með þátttöku í torfæruralli hafi Mitsubishi öðlast mikla reynslu í fjórhjóladrifstækni sem hafi skilað sér í fjórhjóladrifna fjöldaframleiðslubíla Mitsubishi. Þeir séu þekktir fyrir góða aksturseiginleika og endingu. http://www.fib.is/myndir/Mitsub-roma.jpg

Ástæðan fyrir þessari ákvörðun er sögð vera skyndilegt hrun í efnahagsmálum heimsins. Fyrirtækið neyðist einfaldlega til að gæta ítrasta aðhalds og sparnaðar á öllum vígstöðvum.

Dakar rallið féll niður í fyrra vegna hótana hryðjuverkamanna, en á þessu ári var leikurinn hafinn að nýju, en ekki í Afríku að þessu sinni heldur í S. Ameríku. Keppnin í ár hófst að vanda á fyrstu dögum ársins og athygli vakti að Mitsubishi mætti til leiks með nýja bíla – dísilknúna Lancer torfærubíla í stað hinna sigursælu bensínknúnu Pajero Evoloution. Aðeins einn bíla liðsins náði að ljúka keppni og hafnaði í tíunda sætinu. Það var bíll Nani Roma sem sést á báðum myndunum sem fylgja þessari frétt.