Mitsubishi rafbíll á Evrópumarkað 2010

http://www.fib.is/myndir/Mitsub.Miev.jpg
Mitsubishi iMiev rafbíll.

Það er greinilegt að rafbílarnir á bílasýningunni í París sem nú stendur yfir, vekja mesta athygli og áhuga sýningargesta. Og það sem meira er – þeir munu koma í talsverðum mæli út á evrópska vegi 2010, eftir rúmlega eitt ár.

Einn þeirra rafbíla sem væntanlegur er á almennan bílamarkað í Evrópu árið 2010 var reyndar hér á landi fyrir ekki svo löngu, í tengslum við ráðstefnu um sjálfbærar samgöngur. Þetta er Mitsubishi i-Miev sem tíðindamanni FÍB fréttasíðunnar gafst reyndar tækifæri til að aka nokkra vegalengd á götum Reykjavíkur. Á fyrrnefndri ráðstefnu undirrituðu reyndar fulltrúar Mitsubishi og Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra samning um að reynsluaka og þolprófa tvo til þrjá slíka bíla hér á Íslandi á næsta ári. Allmargir i-Miev bílar eru þegar í slíkum akstri í heimalandinu Japan. Þegar þessum þolraunum lýkur fara bílarnir í fjöldaframleiðslu og sölu.

i-Miev bílarnir eru sagðir komast 160 kílómetra á rafhleðslunni. Reynsluökumaður FÍB sem ók bílnum hér á Íslandi fyrr í haust segir að bíllinn hafi í flestu hegðað sér í akstri eins og venjulegur sjálfskiptur fólksbíll nema að því leyti hversu hljóðlátur hann var. Hann hafði fína vinnslu og snöggt viðbragð og inni í honum var hlýtt og þurrt þrátt fyrir rok og rigningu úti. Í þessum rafbíl er nefnilega miðstöð eins og í venjulegum bíl. Hún sækir ylinn í kælikerfi rafgeymanna á sama hátt og miðstöð í venjulegum bílum sækir ylinn í kælikerfi bensín-/dísilvélarinnar. 

Mitsubishi i-Miev er í raun þegar í framleiðslu og sölu á heimamarkaði í Japan og reyndar Bretlandi líka, sem Mitsubishi i. Þetta er fjögurra manna sjálfskiptur bíll með þriggja strokka bensínvél afturí og drifi á afturhjólum, svipað og var í gömlu VW bjöllunni. Á bílasýningunni í Frankfurt í fyrra var MMC i sýndur og þá sagði Tim Tozer forstjóri Mitsubishi í Evrópu að til stæði að framleiða i- bílinn með vinstrihandarstýri fyrir Evrópulönd með hægri umferð frá ársbyrjun 2009. Í samtali við blaðamann þýska blaðsins Automobilwoche á Parísarsýningunni dregur hann þetta hins vegar til baka og segir að bíllinn verði eingöngu á markaði í Evrópu frá fyrrihluta ársins 2010 og þá sem rafbíllinn i-Miev.

Evrópuforstjórinn segir að i-Miev verði talsvert dýr til að byrja með. Ástæða þess sé fyrst og fremst líþíumrafhlöðurnar sem verði dýrar í framleiðslu fyrsta kastið. Því muni fyrstu kaupendur bílsins einkum verða fyrirtæki og stofnanir sem annt er um umhverfisvæna ímynd sína. Hann væntir þess hins vegar að verðið lækki eftir þetta tvö til þrjú ár þegar fjöldaframleiðsla líþíumrafhlaða færist í aukana. Þá lækki verð rafhlaðanna og bíllinn verði smám saman áhugaverður kostur fyrir almenna bíleigendur og fjölskyldur.