Mjög nákvæm rafræn vegakort - grundvöllur sjálfskeyrslutækninnar

Alger forsenda sjálfkeyrandi umferðar bíla að hluta eða öllu leyti er  að hin rafrænu kort í leiðsögutækjum bílanna séu mjög nákvæm og sjálf tækin og GPS-gervitunglin verða að staðsetja farartækin mjög nákvæmlega á vegum og götum. Í Evrópu og fleiri heimsálfum er vinna þegar í fullum gangi við að kortleggja vegakerfin og umhverfi þeirra.

Sjálfkeyrandi bíll verður að hafa rafræna sjón sem les veginn og umhverfi hans og ber stöðugt saman við kort og kortagrunna í staðsetningartækjum og tölvubúnaði bílsins. Rafræna sjónin og mjög nákvæm kort eru forsenda þess að sjálfkeyrandi bílar geti verið á ferðinni á götum, vegum og hraðbrautum. Öflugir framleiðendur GPS- leiðsögutækja eins og TomTom, Garmin o.fl. eru þegar langt komnir með að kortleggja evrópsku hraðbrautirnar mjög nákvæmlega og í þrívídd auk þess að skilgreina kant- og miðlínur akbrautanna og nánasta umhverfi veganna, eins og t.d. vegrið, tré, ljósastaura, skilti, byggingar o.s.frv. Þetta er nauðsynlegt því sjálfkeyrandi bílar verða að „vita“ nákvæmlega hvar þeir eru staddir á sérhverju augnabliki á veginum og hvað er framundan löngu áður en „sjón“ bílsins og skynjarar hans hafa „séð“ það. Ónákvæmni og þar með frávik í hefðbundnum staðsetningartækjum geta verið talsverð og vel umfram það sem telst ásættanlegt í sjálfstýrðum bílum. Þar má frávik ekki ekki vera meira en 15 sm  til hliðanna og mest 50 sm fyrir framan bílinn.

En allt er breytingum háð: Nýir vegir eru lagðir og eldri vegum breytt á ýmsan hátt. Það kallar á uppfærslu kortagrunna staðsetningartækjanna. Þeir sem eiga hefðbundin leiðsögutæki hafa lengst af komist af með það að uppfæra kortin einu sinni á ári, en í sjálfkeyrandi bílum er það hvergi nærri nóg. Uppfæra þarf tækin í þeim miklu oftar og jafnvel daglega sumsstaðar oghver uppfærsla verður að taka miklu skemmri tíma en áður, jafnvel örfáar mínútur og gerast sjálfvirkt.