Moli um ökuhraða í vistgötum

Þann 11. maí s.l. tóku gildi lög um breytingu á umferðarlögum. Með breytingunni eru 15 greinar laganna lagfærðar ef svo má segja. Ein af þessum lagfæringum snýr að vistgötum. Í tíð eldri umferðarlaga var ákveðið að hámarkshraði í vistgötu skyldi vera 15 km/klst.  Það þótti gefast ágætlega og olli ekki teljandi vandræðum.

Við gildistöku „nýju“ umferðarlaganna um þar síðustu áramót kom hinsvegar ný regla til sögunnar, nefnilega að hámarkshraði í vistgötu skyldi frá þeim tíma vera 10 km/klst.

Samviskusamir starfsmenn sveitarfélaganna tóku þessa lagasetningu alvarlega . Við Strandgötuna í Hafnarfirði var þessu fylgt eftir með einurð og ákveðni og sett skýrt og fallegt 10 km hraðaskilti nokkru fyrir innan vistgötuskiltið eins og sjá má á ljósmyndinni.

Í fyrrnefndri breytingu á umferðarlögunum sem tók gildi þann 11. maí s.l. var farið aftur til fortíðar og ákveðið að á ný skyldi hámarkshraðinn í vistgötu vera 15 km/klst. Breytingin tók gildi samdægurs.

Væntanlega fer núna fram leit að gömlu 15 km skiltunum til að skreyta á ný vistgötur þessa lands. Í það minnsta þykist molahöfundur vita að þess verði skammt að bíða að 10 km skiltið sem hangir uppi í Strandgötunni í Hafnarfirði verði tekið niður og gamla merkið sett upp.

En að öllu gamni slepptu þá telur FIB að þessi breyting sé til bóta. Ökumönnum er alveg treystandi til að virða forgang gangandi vegfarenda og sýna þeim tillitssemi þótt þeim leyfist að aka á 15 km/klst.