Montoya fer í NASCAR

The image “http://www.fib.is/myndir/Montoya.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Juan Pablo Montoya.
Þá er það komið á hreint að Juan Pablo Montoya hættir hjá McLaren liðinu í Formúlu 1. Sömuleiðis er það orðið ljóst að hann er hættur í Formúlunni yfirleitt og gerist ökumaður í NASCAR í Bandaríkjunum en það er lang vinsælasta kappakstursgreinin í Bandaríkjunum.

Montoya er fyrsti Formúluökumaðurinn sem yfirgefur hana og fer í NASCAR. Þetta þykja stórtíðindi því að Montoya var talinn vera sá sem hefði alla hæfileika og burði til að geta orðið arftaki Formúluafreksmannsins Michael Schumacher.

Sterkur orðrómur hefur verið um að til stæði að reka Montoya úr McLaren liðinu en hann lét það ekki gerast því hann sagði sjálfur upp í vikunni. Þegar hann frétti af því að sigursæll NASCAR ökumaður í Ganassi liðinu, Casey Mears að nafni hefði ákveðið að hætta hjá Ganassi og standa upp úr bílstjórasætinu á bíl nr. 42 og flytja sig yfir til Chevrolet, hringdi Montoya í hvelli í Ganassi sjálfan og bað um starfið, Ganassi sagði já og Montoya keppir því í NASCAR í Bandaríkjunum á næsta keppnistímabili. - Það tók okkur aðeins klukkustund að ganga frá öllum atriðum, sagði Montoya við fréttamenn í gær og kvaðst mjög ánægður með að vera að hætta í Formúlunni og byrja í NASCAR.

Um er að ræða nokkurra ára samning milli Montoya og Ganassi sem er óvenjulegt því að Montoya hefur aldrei áður háð NASCAR-keppni, en hann keppti hinsvegar fyrr á árum í hinum bandaríska Indy flokki í liði Ganassi og varð sigurvegari árið 2000. Ganassi sagði við fréttamenn af reynsluleysi Montoya hefði hann ekki áhyggjur, hann vissi hve fljótur Montoya væri að læra nýja hluti.

Montoya mun ljúka keppnistímabilinu í Formúlunni en strax að því loknu fer hann í æfingabúðir og alls kyns próf til að afla sér tilskilinna leyfa til að mega aka í Daytona 500 keppninni en með henni hefst nýtt NASCAR-keppnistímabil.