Mosley áfram í forsæti FIA

http://www.fib.is/myndir/Max-mosley.jpg
Max Mosley.

Á sérstökum fulltrúaráðsfundi FIA í París í morgun voru greidd atkvæði um það hvort Max Mosley forseti samtakanna sæti áfram á forsetastóli út kjörtímabilið eða viki sæti í kjölfar afhjúpana News of the World á heimsókn Mosleys á nuddstofu sérstakrar tegundar í London og því sem þar fór fram. Atkvæðagreiðslan for á þann veg að 55 vildu að Mosley viki, en 103 með því að hann sæti áfram það rúma ár sem eftir er af kjörtímabili hans. Sjö fulltrúar skiluðu auðu og fjögur atkvæði voru ógild.

Eftir að fregnir af nuddstofuheimsókninni birtust ásamt myndum af því sem fram fór tóku að birtast í fjölmiðlum, ekki síst á Netinu kom upp krafa um að Mosley stigi af forsetastóli vegna þess trúnaðarbrests sem orðið hafði. Mosley hefur alla tíð neitað að víkja og sagt að heimsóknin umtalaða tengdist hans helgasta einkalífi sem engum kæmi við og hefði engin áhrif á störf hans sem forseti Fédération Internationale de l'Automobile eða FIA – heimssamtaka bifreiðaeigendafélaga og bifreiðaíþróttafélaga.

Evrópskir fjölmilar greina frá því í dag að þetta rúma ár sem eftir er af kjörtímabili forsetans eigi eftir að reynast honum erfitt. Flestir stærstu bifreiðaeigendaklúbbarnir eins t.d sá þýski, hollenski og franski vildu að nýr forseti yrði valinn strax í haust og að Mosley viki þá sæti. Þá hafa margir bílaframleiðendur innan Formúlu 1 verið sama sinnis. Þá hafa áhrifamenn í fjölmörgum þeirra ríkja sem halda marga af stærstu viðburðum mótorsportsins látið þau boð út ganga að nærveru forseta FIA sé ekki óskað.