Mótorhjól og „ostaskeravegrið“

http://www.fib.is/myndir/Biker.jpg

Í gær afhentu mótorhjólamenn úr bifhjólasamtökunum Sniglum Sturlu Böðvarssyni samgönguráðherra undirskriftir 2078 bifhjólamanna undir áskorun um að taka niður víravegrið sem mótorhjólamenn hafa kallað ostaskera. Með þessu uppnefni á víravegriðum er væntanlega verið að vísa til þess að vírarnir geti skorið mótorhjólamann sem á þeim lendir í sundur sem ostur væri. Þau gögn sem fylgdu með kröfunni voru tölvugerð mynd af því sem gerist þegar mótorhjólamaður lendir á víravegriði. Samkvæmt myndinni virðast það þó einkum vera staurarnir sem bera vírana uppi sem eru mótorhjólamanninum háskalegir, fremur en vírarnir sjálfir. Engin önnur gögn eins og niðurstöður slysarannsókna bæði hér heima og erlendis voru lögð fram til stuðnings kröfunni. Hversu mikið mark ber ráðherra að taka á kröfu sem ekki er betur undirbyggð?

Samkvæmt þeim heimildum og gögnum bæði hér heima og erlendis sem FÍB hefur aðgang að er fátt að finna um meinta stórhættu af víravegriðum fyrir bifhjólafólk. Engin innlend gögn er að finna um dauðaslys eða alvarleg slys á mótorhjólamönnum sem beinlínis má rekja til víravegriða eða „ostaskera.“ Ekkert er heldur að finna neitt sem leiðir líkur að því að „ostaskerarnir“ eða umferðardeilarnir sem hér á landi fyrirfinnast á þjóðvegi 1 í Svínahrauni, séu mótorhjólafólki háskalegri en t.d. hefðbundin vegrið eða steinsteypuklumpar.

Hafa bjargað mannslífum
Á hinn bóginn er hægt að fullyrða að „ostaskerarnir“ í Svínahrauni hafa forðað stórslysum með því að hindra bíla í því að fara yfir á rangan vegarhelming og lenda í árekstri við farartæki komandi úr gagnstæðri átt. Í minnst þriggja slíkra skráðra tilfella hafa „ostaskerarnir“ komið í veg fyrir stórslys og að öllum líkindum bjargað mannslífum. Það er vel hugsanlegt að tilfellin séu mun fleiri því að ekið hefur verið utan í „ostaskerana“ í hátt á annan tug skipta síðan þeir voru settir upp. Ökumaður stórs flutningabíls hefur sagt undirrituðum frá því þegar hann var á austurleið í fyrravetur í bleytu og dimmviðri og sá ökumann á bíl á miklum hraða missa stjórnina. Bíllinn skall á „ostaskeranum“ sem „greip“ bílinn og forðaði því að hann lenti framan á 40 tonna þungum þungaflutningabílnum. Þungaflutningabílstjórinn fullyrðir að miðað við hraðann sem á fólksbílnum var hefði ökumaður hans og farþegi í framsæti varla lifað af, hefði árekstur orðið.

Eftir því sem best er vitað hefur eitt banaslys á bifhjóli hérlendis orðið beinlínis vegna áreksturs við hefðbundið vegrið, ekkert við víravegrið. En það má líka nefna dæmi um hið gagnstæða þegar hefðbundið vegrið í Ártúnsbrekku kom í veg fyrir að bifhjólamenn runnu stjórnlaust yfir á rangan vegarhelming og inn í umferðina á móti. Afleiðingar þess hefðu án efa orðið skelfilegar.

Mergurinn málsins er sá að umferðin er háskaleg og fyrir lítt varða ökumenn vélhjóla er hún enn háskalegri en fyrir fólkið í bílunum. En úr þeim háska má draga á ýmsan hátt, meðal annars með því að allir ökumenn gangist við ábyrgð sinni á sjálfum sér og samborgurum sínum í umferðinni og með því að gera vegina sem háskaminnsta.

Langflest alvarleg umferðarslys verða þegar ökumenn aka yfir á rangan vegarhelming og árekstur verður við ökutækið sem á móti kemur, eða þegar menn missa ökutæki sín út af vegi og lenda á einhverju háskalegu utan við veg; stórgrýti, staurum, skurðum o.s.frv. Undanfarið höfum við séð hræðileg slys af fyrrnefndu tegundinni sem „ostaskeri“ eða vegrið sem aðskilur umferð til gagnstæðra átta hefði forðað. Mótorhjólamenn mættu hafa það í huga að tilviljun getur ráðið því að ökutæki sem fer yfir á rangan vegarhelming, lendi allt eins á mótorhjóli eins og bíl. Að aðskilja umferð til gagnstærða átta, meira að segja með „ostaskera“ er því ekkert síður í þeirra þágu en þeirra sem í bílum eru.

Þær þjóðir sem mest hafa notað „ostaskera“ eru Svíar. Þar hafa verið lagðir ríflega 1500 kílómetrar víravegriða og þau elstu eru yfir tveggja áratuga gömul. Þar í landi eru einungis þekkt ellefu bifhjólaslysatilvik þar sem víravegrið komu við sögu. Sjö tilvikanna flokkast sem alvarleg slys og þar af létust tveir. Minniháttar meiðsl urðu í tveimur þessara ellefu tilvika.

Niðurstöður rannsókna á þessum slysum leiða í ljós að víravegriðin höfðu ekkert með örsök slysanna að gera og ekkert benti til þess að afleiðingar höfðu orðið verri vegna víranna. Þetta og fleiri þekkt tilvik benda ekki til þess að víravegrið séu verri fyrir mótorhjólamenn en aðrar lausnir eins og hefðbundin vegrið og steinsteypuklossar. Það eru fyrst og fremst endar og uppistöður sem eru bifhjólamönnum (og ökumönnum bíla) háskalegt en ekki sjálfir vírarnir eða vegriðin. Sama er að segja um aðra harða hluti við vegi eins og ljósastaura o.þ.h. svo ekki sé minnst á umferð á móti.

Talskona bifhjólamanna sagði við fréttamann RÚV við afhendingu undirskriftanna að ekki ætti að fórna öryggi bifhjólamanna fyrir hagsmuni annarra vegfarenda. Á sama hátt má segja að það gengur heldur ekki að fórna öryggi annarra vegfarenda svo bifhjólamenn geti tekið óhindrað framúr hvar sem er.

Stefán Ásgrímsson.