Mótorhjólaprófsaldurinn breytist

Nýjar reglur og lög um ökuréttindi til akstur mótorhjóla taka gildi í Evrópu frá og með 19. janúar 2013. Meginbreytingin frá núverandi reglum er sú að aldursmark til að öðlast réttindi til að aka öflugustu mótorhjólunum hækkar úr 21 ári í 24 ára. Reglurnar munu gilda í ríkjum Evrópusambandsins og ríkjum hins evrópska efnahagssvæðis að Íslandi meðtöldu að öllu óbreyttu.

Á Evrópuökuskírteinunum nú eru réttindi til mótorhjólaaksturs tilgreind í reiti sem merktir eru með bókstafnum A. Undir þessum bókstaf eru síðan reitir sem tilgreina hvenær skírteinishafi öðlaðist réttindi til aksturs léttra mótorhjóla annarsvegar og hins vegar stærri mótorhjóla. Á skírteinin sem gefin verða út eftir 19. janúar 2013 bætist nýr flokkur sem nefnist A2 og verður hann fyrir stór mótorhjól með ótilgreindu hámarksafli.

Í raun verður þannig um þrjá flokka mótorhjóla að ræða: í fyrsta lagi létt mótorhjól eða skellinöðrur sem fólk getur fengið réttindi á frá og með 16 ára aldri. Þá kemur næsti flokkur sem veitir réttindi sem öðlast má við venjulegan bílprófsaldur sem hér á landi er 17 ár, en 18 ár víðast hvar annarsstaðar í Evrópu. Þessi réttindi gilda fyrir akstur hjóla með allt að 35 kílówatta vélarafl eða 47 hö. (var áður 25 kílówött). Þá má hlutfall vélarafls miðað við þyngd ekki vera hærra en 0,2 kílówött á hvert kíló.

Svo þegar fólk er orðið 24 ára getur það samkvæmt nýju lögunum öðlast ökuréttindi á öflugustu mótorhjólin.

Nýju reglurnar verða ekki afturvirkar þannig að fólk heldur öllum réttindum sem það kann að hafa aflað sér fyrir 19. janúar 2013.