Mustang fær fimm stjörnur í árekstursprófi hjá NHTSA í Bandaríkjunum

http://www.fib.is/myndir/Mustang2008.jpg

2008 árgerðin af Ford Mustang blæjusportbíl er fyrsti blæjubíllinn í Bandaríkjunum til þessa sem nær hæstu einkunn í árekstursprófi hjá National Highway Traffic Safety Administration, NHTSA í Bandaríkjunum.

Eins og hjá EuroNCAP eru fimm stjörnur hæsta einkunn sem bílar geta fengið í árekstursprófi fyrir vernd fólksins í bílnum, bæði í fram og aftursætum. Mustanginn hlaut einnig fimm stjörnur fyrir það hversu ógjarn hann er á að velta í hranalegum akstri. Um er að ræða 2008 árgerðina sem hefur það fram yfir 2007 árgerð að hafa hliðarloftpúða, ekki aðeins fyrir framsætin heldur líka aftursætin. Þá hefur blæjugerðin það framyfir Mustang með hefðbundnum stáltoppi að hafa sérstyrkingu til að koma í veg fyrir að yfirbyggingin aflagist. Þessi sérstyrking veitir aftursætisfarþegum sérstaklega aukna vernd miðað við stáltoppsútfærsluna.

Í árekstursprófum NHTSA er, eins og hjá EuroNCAP, líkt eftir algengustu framanáárekstrum tveggja bíla og er sá bíll sem prófaður er látinn skella á málmstykki sem gefur eftir svipað og annar bíll gerir, á tæplega 60 km hraða. Hliðarárekstursþolið er prófað þannig að um 1.500 kílóa málmstykki er keyrt í hlið bílsins á um 62 km hraða.