Mustang með aðeins tvær stjörnur úr árekstursprófi Euro NCAP - Myndband

Sjaldgæft er að nýr bíll komi jafn illa út úr árekstursprófi Euro NCAP og Ford Mustang gerði nú nýlega, og fái einungis tvær stjörnur af fimm mögulegum

    Þetta var í fyrsta sinn sem þessi sögufræga bílgerð var árekstursprófuð hjá Euro NCAP. Samskonar bíll hefur þegar verið prófaður af IIHS í Bandaríkjunum. Þar var árangur bílsins í meðallagi en þó mun betri en í evrópska prófinu. Það vekur óhjákvæmilega upp spurningar um hvort og þá hvernig þessi próf (sem eru mjög svipuð) geta gefið svona ólíkar niðurstöður. Eru þær Mustang-gerðir sem bjóðast á Evrópumarkaði eitthvað öðruvísi úr garði gerðar en sömu bílar á Bandaríkjamarkaði?

    Það er orðið nokkuð langt síðan bíll kom síðast jafn illa út úr árekstursprófi hjá Euro NCAP og Mustanginn. Sá bíll sem lægstur varð að stjörnum árið 2016 var ítalski smábíllinn Lancia Y árgerð 2015. En hann náði þó þremur stjörnum af fimm.

    Áreksturspróf Euro NCAP eru gerð í fjórum meginþáttum og fyrir hvern þátt eru 100 stig í boði. Fyrsti þáttur skiptist í undirþættina – vernd fullorðinna, vernd barna, og vernd fótgangandi. Fyrir vernd fullorðinna náði bíllinn 72 stigum sem telst lágt fyrir nútímabíla,  fyrir vernd barna náði hann 32 stigum sem er það minnsta um talsvert árabil. Þá vantaði viðörunarflaut vegna aftursætisfarþega sem spenna ekki bílbeltin og fullorðinn aftursætisfarþegi rann undir beltið og úr því við framanáárekstur. Ennfremur slóst höfuð barns í barnastól í gluggastólpa í hliðarárekstri vegna þess að loftpúðagardínan er of stutt. Það er því aftursæti bílsins sem stærstan þátt á í lélegri útkomu bílsins.

    Í framanáárekstri reyndist vörn fullorðinna í framsætinu ónóg  vegna þess að loftpúðarnir sem verja eiga höfuð þeirra eru of loftlitlir og hætta á að höfuð þeirra sláist í harða hluti í mælaborð og stýri.  

    Ford hefur nýlega uppfært Mustang í Bandaríkjunum en ekki í Evrópu. Það átti að gerast síðar á árinu. Í Evrópu hefur bíllinn heldur ekki verið fáanlegur með radarsjón og sjálfvirkri nauðhemlun, en spurning hvort ekki verði bætt úr hvorutveggja eftir þessa útreið hjá Euro NCAP og bíllinn prófaður aftur fljótlega í endurbættri útgáfu.