Náði ekki landi

Gísla Gunnari Jónssyni torfærukappa tókst ekki að ná landi í hinum þýska sjónvarpsskemmtiþætti „Wetten dass"  sl. laugardag. Í þættinum átti hann að aka á torfærutrylllitæki sínu í beinni útsendingu yfir manngert stöðuvatn í gamalli námu skammt utan við Freiburg í Þýskalandi. Því miður stöðvaðist bíllinn þegar fáir tugir metra voru eftir til lands og sökk bíllinn, en Gísli komst út úr honum og synti til lands.

Ekki fór þó svo að bíllinn hyrfi ofan í 80 metra djúpt vatnið því að búið var að koma fyrir á honum flotholtum sem blésu sjálfvirkt upp þegar bíllinn sökk og maraði hann því í hálfu kafi. Björgunarlið var tiltækt þannig að engin hætta var á ferðum.

Skemmtiþátturinn Wetten dass er á dagskrá sjónvarpsstöðvarinnar ZDF og jafnan sendur út í beinni útsendingu að viðstöddum fjölda gesta í sal. Í hverjum þætti eru tekin fyrir 5 mismunandi áhættuatriði og veðja gestir í sal um hvort atriðin takist, eða mistakist. 

Hægt er að sjá áhættuatriði Gísla. Smellið hér, smellið svo á „Sendung verpasst“ efst á síðunni sem upp kemur. Smellið næst á Sat. 03.10.09 og síðan á hægri örina neðst á síðunni og loks á Wetten dass. Atriði Gísla er svo að finna hægra neðra horninu.