Nærri 50 króna munur á bensínlítranum

Nærri fimmtíu króna verðmunur er á ódýrasta bensínlítranum og þeim dýrasta. Þannig er sextíu og fjórum þúsund krónum dýrara á ári að kaupa bensín á fjölskyldubílinn ef alltaf er keypt þar sem dýrast er en ef dælt er þar sem verðið er lægst. Hægt er að spara sér töluverðar fjárhæðir með að aka nokkra kílómetra milli stöðva á höfuðborgarsvæðinu að því fram kemur á ruv.is í umfjöllun um málið.

Lægsta verðið á bensínlítranum er tvö hundruð og níu krónur hjá Costco en þar þarf að greiða árgjald. Hæsta verðið er hjá N1 eða rétt tæpar tvö hundruð og fimmtíu og fimm krónur lítrinn, eða hátt í fimmtíu krónum hærra. 

„Ef við tökum hefðbundinn heimilisbíl sem eyði sjö lítrum á hundraði og er ekinn kannski 20.000 kílómetra á ári, þá þarf að borga 64 þúsund krónum meira fyrir eldsneytið þar sem það er ódýrast,“ segir Runólfur Ólafsson.

Ef við skellum okkur í ferðalag frá Reykjavík og kaupum bensín fyrir tíu þúsund krónur, þá komumst við á ódýrasta bensíninu til Reyðarfjarðar. Ef sama leið væri farin en bensín tekið á dýrasta staðnum kæmust við hundrað og tuttugu kílómetrum styttra eða til Djúpavogs.

Á höfuðborgarsvæðinu þarf oft ekki að fara langt til að komast í ódýrara bensín. Þannig geta viðskipavinir Atlansolíu sparað sér þrjátíu krónur með því að hætta við að dæla á bílinn við Hafnarfjarðarhöfn og farið í þess stað í Kaplakrika sem er átta kílómetrum í burtu. Þeir sem skipta við N1 geta sparað þrjátíu og fimm krónur með því að aka átta kílómetra frá Stórahjalla og að bensínstöðinni á Reykjavíkurvegi. Og viðskiptavinir ÓB geta sparað þrjátíu og átta krónur á lítranum með því að aka frá Suðurhellu, tíu kílómetra leið að Bæjarlind.

Lægstu verðin eru iðullega í nágrenni Costco.

„Ég held að þessi eina stöð Costco í Kauptúni sé að selja hátt í fimmtán prósent af heildarmagni eldsneytissölu á Íslandi,“ segir Runólfur.

En hvað getur skýrt 50 króna mun? Er Costco að borga með eldsneytinu eða erum við að fá meiri þjónustu þegar við borgum 50 krónum meira?

„Aðalskýringin er álagning,“ segir Runólfur.

Oftast situr landsbyggðin uppi með hæsta eldsneytisverðið.

„Við sjáum það að þetta er bara verðstýringastefna af því að þessi fyrirtæki eru að reka önnur fyrirtæki sem eru að selja þjónustuvörur fyrir heimilin og matvöru á sama verði um land allt,“ segir Runólfur í samtali við ruv.is