Næsti New York-taxi verður Nissan

Nissan hefur unnið kapphlaupið um næsta New York leigubílinn því að borgin hefur samið við Nissan um málið. Samningurinn gildir til ársins 2023. Guli leigubílaflotinn sem eru hluti samgöngukerfis þessarar höfuðborgar heimsins fær því smám saman nýja ásýnd. Ford Crown Victoria sem hefur verið aðal leigubíllinn á Manhattan og nánast óbreyttur frá 1992 víkur nú fyrir allt annarskonar bíl, sem sagður er mun þægilegri fyrir farþega, miklu eyðslugrennri og öruggari. 

http://www.fib.is/myndir/Nissan-taxi-innr.jpg
Innrétting nýja New York leigubílsins.
Á skjánum geta farþegar m.a. séð
hvar bíllinn er staddur með þá hverju
sinni.

Nýi Nissan-leigubíllinn hefur gerðarheitið NV200. Hann verður byggður í verksmiðju Nissan í Mexíkó og verða fyrstu bílarnir afhentir bílstjórunum í ársbyrjun 2013. Nissan NV200 verður með tveggja lítra, fjögurra strokka bensínvél. Til samanburðar þá eru Ford Crown Victoria bílarnir með 4,6 lítra V8 bensínvél sem eyðir 14,7 lítrum á hundraðið samkvæmt því sem framleiðandinn gefur upp. Í nýju Nissan leigubílunum ganga farþegar inn og út um stórar dyr með rennihurðum fyrir farþegarýminu. Sæti eru fyrir fjóra farþega og innstunga er í farþegarýminu til að hlaða farsíma. GPS leiðsögukerfi verður í sérhverjum bíl þannig að ekki ætti að vera hætta á að bílstjórar villist og farþegar geta fylgst með staðsetningunni á skjá. Bíllinn er þannig gerður að auðvelt verður að byggja hann sem tvinnbíl eða hreinan rafbíl og reyndar verða nokkur eintök af honum sem rafbíl tekin í notkun í tilraunaskyni. Rafbílarnir verða með í hópi fyrstu bílanna sem afhentir verða 2013.

Þeir sem komið hafa til New York kannast við hversu hávær umferðin á Manhattan getur verið þegar bílstjórar, ekki síst leigubílstjórarnir, liggja á flautunni hver um annan þveran. Af þeim ástæðum er flautan í nýju Nissan leigubílunum höfð lágvær og ljós kvikna og blikka utan á bílnum þegar ökumaður leggst á flautuna.

Borgaryfirvöld í New York byrjuðu að huga að nýjum leigubílum árið 2009 undir kjörorðunum Taxi of Tomorrow. Fjölmargir bílaframleiðendur sendu inn tillögur að nýjum leigubílum en að lokum stóð valið milli Nissan, Ford og hins tyrkneska Karsan.