NAF í Noregi höfðar mál á hendur Nissan

The image “http://www.fib.is/myndir/NissanXTrail.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Hið norska systurfélag FÍB, NAF hefur höfðað mál á hendur Nissan í Noregi fyrir rangar upplýsingar um vélarafl í Nissan X-Trail jepplingnum. Málflutningur fer fram 5. og 6. des. nk.
Málið snýst um það að í auglýsingum og öðrum gögnum um Nissan X-Trail með tveggja lítra vél og sjálfskiptingu segir að vélin sé 140 hestöfl. NAF hefur hins vegar mælt aflið og samkvæmt þeim mælingum er vélarafl bíla af þessari gerð 112 til 116 hestöfl.
Nissan Í Noregi vísar mælingum NAF út í hafsauga og segir að þær séu á skjön við það sem segir í gerðarviðurkenningargögnum bílsins. NAF segir á móti að mælingum félagsins beri algerlega saman við gerðarviðurkenningargögn um aðra bíla, þar á meðal aðrar gerðir Nissan bíla. Félagið bendir á að vélarafl sé fyrir marga bíleigendur mikilvæg ástæða fyrir því að þeir festa kaup á tilteknum bílum og bílagerðum. Nissan segi ósatt um vélarafl Nissan X-Trail og því hafi málið verið höfðað fyrir hönd félagsmanns sem einmitt festi kaup á Nissan X-Trail vegna þess að hann var sagður vera þetta aflmikill, en annað sé nú komið í ljós.
Á heimasíðu IH, umboðsaðila Nissan á Íslandi segir í tækniupplýsingum um sjálfskiptan Nissan X-Trail 2,0 að vélaraflið sé 103 kW/140 hö við 6000 sn./mín.