Nemendum í Foldaskóla kennt að skipta um dekk

í 10. bekk við Foldaskóla í Grafarvogi hefur sl. ár staðið til boða valgrein við skólann sem heitir fornám til ökunáms. Í þessu fagi er farið yfir ýmsa þá þætti sem tengjast bílnum.

Hjörtur Gunnar Jóhannesson, starfsmaður FÍB aðstoðar, heimsótti Foldaskóla í gær og fræddi nemendurna allt um dekkjaskipti.

Kristín Helgadóttir Ísfeld námsráðgjafi við Foldaskóla og jafnframt ökukennari kennir fornám ökunáms við skólann. Kristín segir að skólinn hafi boðið upp á þessa valgrein í sex ár en þessi þáttur ökunámsins að kenna nemendum að skipta um dekk hefur ekki verið í boði áður.

,,Við erum himinsæl með að hafa fengið FÍB í lið með okkur í þeim tilgangi að fræða nemendur hvernig dekkjaskipti eru framkvæmd. Krakkarnir sýna þessu mikinn áhuga og auðvitað eru þau afar spennt fyrir bílprófinu. Það er afar brýnt að kunna að skipta um dekk en það er hvergi í ökunáminu að finna fræðslu um þennan hluta,“ segir Kristín Helgadóttir Ísfeld.