New York kveður Crown Victoria

Gulu (Yellow Cab) leigubílarnir í New York borg sem flestir eru af Ford Crown Victoria gerð, heyra brátt sögunni til. Bloomberg borgarstjóri vill fá leigubíla svipaða bílunum í London – bíla sem auðvelt er að stíga inn í og út úr – og sem jafnframt eru sparneytnari en risastóru gamaldags drossíurnar sem hingað til hafa tíðkast.

http://www.fib.is/myndir/TransitCon_Taxi.jpg
Nýr Yellow Cab frá Ford. Ford Transit
Connect.
http://www.fib.is/myndir/Nyctaxi_carsan.jpg
Tyrknesk-bandaríska fyrirtækið Karsan USA
hefur hannað nýjan bíl frá grunni. Pláss fyrir
fimm farþega, gott farangursrými, fjarstýrðar
rennihurðir og innbyggð hjólastólarenna.
http://www.fib.is/myndir/Nyctaxi_nissan.jpg
Nissan byggir á sendibílnum NV200. Renni-
hurðirá báðum hliðum, 1,6 l bensínvél eða
1,4 l dísilvél.

Yellow Cab leigubílarnir eru hluti samgöngukerfis borgarinnar undir yfirstjórn sérstakrar leigubílanefndar borgarinnar sem heitir Taxi and Limousine Commission (TLC). Bílarnir sjálfir eru hins vegar í eigu félaga eða einstaklinga.

Yellow Cab bílarnir eru 13.500 talsins og amk. 12 þúsund þeirra eru af Ford Crown Victoria gerð. Nokkuð er síðan Bloomberg borgarstjóri setti fram hugmyndir sínar um breytta leigubíla og nú hefur TLC nefndin valið úr þrjá framleiðendur til að þróa áfram hugmyndir sínar sem áður hafa verið kynntar og prófaðar í leigubílaharkinu í New York. Þessir framleiðendur eru Ford með bíl sem byggður á Transit Connect sendibílnum, Nissan og tyrknesk-bandaríska fyrirtækið Karsan.

Þetta er í fyrsta sinn í sögu borgarinnar sem beðið er um að opinberu leigubílarnir séu sérhannaðir og byggðir sem leigubílar. Hingað til hafa leigubílarnir nánast allir verið „Ameríkufólksbílar“ af stærstu gerð. Upp úr miðri síðustu öld var Checker reyndar algengur sem leigubíll, en hann var sérbyggður til leiguaksturs. Frumkvæðið að Checker kom þó ekki frá borgaryfirvöldum heldur Checker fyrirtækinu sjálfu, sem nú er reyndar hætt að byggja leigubíla.

En nú verður breyting á bílaflotanum og frá 2013 á að byrja á að skipta hinum gamaldags stóru og þungu, 5,4 metra löngu Crown Victoria bílum út. Í þeirra stað eiga að koma allt öðruvísi leigubílar, miklu minni um sig og miklu sparneytnari, öruggari en samt rúmbetri og þægilegri fyrir bæði farþega og ökumenn.

Þær kröfur sem TLC nefndin gerir til nýju leigubílanna eru þessar

* Uppfylla ströngustu öryggiskröfur
* Vera sem þægilegastir fyrir farþegana að stíga inn og út
* Eins þægilegir í akstri og frekast er unnt, bæði fyrir farþega og ökumenn
* Vera á skaplegu verði og sem ódýrastir í rekstri
* Vera umhverfismildir (eyða litlu og menga lítið)
* Vera rúmgóðir að innan en litlir um sig
* Uppfylla ítrustu kröfur samtaka fatlaðra
* Vera nógu sérstakir í útliti til að geta orðið einskonar einkennismerki borgarinnar.

Bloomberg borgarstjóri hefur óskað eftir því að borgarbúar og aðrir notendur Yellow Cab leigubílanna verði duglegir að senda inn athugasemdir sínar við nýju bílana þannig að þeir sjálfir hafi síðasta orðið um það hvaða bíll verður á endanum fyrir valinu sem leigubíll áratugarins 2013-2023.