Neyðarhemlunarbúnaður afstýrði enn verri afleiðingum árásarinnar í Berlín 19. des.

Scania trukkurinn fluttur á brott eftir hryðjuverkið á jólamarkaðinum í Berlín 19. desember sl.
Scania trukkurinn fluttur á brott eftir hryðjuverkið á jólamarkaðinum í Berlín 19. desember sl.

Samkvæmt þýskum fjölmiðlum kom sjálfvirk neyðarhemlun vörubílsins sem hryðjuverkamaðurinn Anis Amri frá Túnis ók inn í mannþröng á jólamarkaði í Berlín þann 19. des. sl. í veg fyrir að afleiðingarnar yrðu enn verri.

Hinn sjálfvirki neyðarhemlunarbúnaður stöðvaði bílinn eftir rúmlega 70 metra akstur inn á torgið þar sem jólamarkaðurinn var. Þótt hryðjuverkamanninum tækist ekki að aka lengra en þetta urðu afleiðingarnar samt þær að 12 manns lét lífið. Til samanburðar þá var samskonar hryðjuverk unnið á Bastilludeginum í Nice í Frakklandi í júlí sl. Sá vörubíll sem þar var notaður var af eldri gerð og án sjálfvirks neyðarhemlunarbúnaðar. Þar tókst hryðjuverkamanninum að aka 1,7 kílómetra í mannþröng á göngugötu og myrða þannig yfir 80 manns og slasa fjölda fólks áður en lögreglu og borgurum tókst að stöðva helförina. Þýskir fjölmiðlar greina frá þessu.

Vörubíllinn í Berlín var nýlegur, af gerðinni Scania R 450, skráður í Póllandi og með sjálfvirkum neyðarhemlunarbúnaði sem verið hefur skyldubúnaður í Evrópu í nýjum vörubílum yfir 3,5 tonn að þyngd, frá árinu 2012. Þegar árekstrarhætta er yfirvofandi byrjar kerfið á því að vara ökumanninn við henni en ef hann bregst ekki við, grípur kerfið sjálfvirkt inn í og hemlar bílnum. Það er talið þessu kerfi að þakka að hryðjuverkamanninum tókst ekki að aka lengra en þessa rúmu 70 metra yfir fólk og sölubúðir á jólamarkaðinum.