Niðurfellingu ívilnunar sem tengiltvinnbílar hafa notið frestað

Alþingi hefur ákveðið að fresta fyrirhugaðri niðurfellingu ívilnunar sem tengiltvinnbílar hafa notið í formi lækkaðs virðisaukaskatts, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins í dag. Ívilnunin er að hámarki að fjórum milljónum króna af bílverði og getur því numið að hámarki 960 þúsund krónum.

Til stóð að taka fyrsta skrefið í átt til þess að fella ívilnunina niður um áramótin, hún átti að lækka enn frekar um áramótin 2022 og falla alveg niður 1. janúar 2023.

Í Morgunblaðinu  í dag fagnar Jón Trausti Ólafsson, forstjóri bílaumboðsins Öskju og formaður Bílgreinasambandsins, frestuninni,. „Nú hefur drægni tengiltvinnbíla aukist hratt á síðustu árum, og það hefur sýnt sig að margir kaupa fyrst tengiltvinnbíl á leið sinni yfir í hreinan rafbíl,“ segir Jón Trausti.

Jón Trausti segir ennfremur að Bílgreinasambandið og fleiri hafi talið mikilvægt að halda þessum ívilnunun áfram af fyrrgreindum ástæðum, ásamt því að árið 2020 hafi verið mjög óvenjulegt á bílamarkaðnum vegna kórónuveirufaraldursins.

Tengiltvinnbifreiðar eru með stærri rafhlöður en tvinnbílar og hægt er að hlaða þá milli ferða. Þeir hafa allt að 60 km drægi á rafhlöðunni einni saman og nota því bensínvélina mun minna. Þeir henta vel þeim sem aka 25 til 50 kílómetra daglega. Tengiltvinnbílar bjóða margir upp á stillingu sem nýtir rafhlöðuna einungis til innanbæjaraksturs.

  • Stærri rafmótor aðstoðar við að knýja bílinn
  • Lengri akstursvegalengd án þess að nota bensín
  • Mjög hentugt fyrsta skref í notkun nýrra orkugjafa