Niðurskurður hjá Volvo Cars – 3.000 stöður hverfa
Volvo Cars hefur kynnt sparnaðaráætlun upp á 18 milljarða sænskra króna sem samsvarar um 240 milljörðum íslenskra króna. Þetta felur í sé fækkun starfsfólks og nú er ljóst hversu margar stöður munu hverfa.
Í tengslum við uppgjör fyrsta ársfjórðungs kynnti Volvo Cars sparnaðaráætlun upp á 18 milljarða króna sem felur í sér fækkun starfsfólks. Í fréttatilkynningu greinir bílaframleiðandinn frá því að um 3.000 stöður, þar af 1.000 ráðgjafar, muni hverfa hjá Volvo Cars á heimsvísu. Meirihluti ráðgjafanna er staðsettur í Svíþjóð.
Aðallega verða skrifstofustörf í Svíþjóð fyrir barðinu á niðurskurðinum, sem samsvarar 15 prósentum af heildarfjölda skrifstofustarfsmanna á heimsvísu. Um 1.200 stöður munu hverfa úr starfsemi fyrirtækisins í Svíþjóð. Viðræður við stéttarfélög eru hafnar og í dag verður tilkynnt um uppsagnir til Vinnumálastofnunar (Arbetsförmedlingen).
Að sögn bílaframleiðandans eru skipulagsbreytingarnar nauðsynlegar til að Volvo Cars geti staðið við langtímastefnu sína um að styrkja forsendur fyrir arðbærum vexti.
,,Bílaiðnaðurinn er á krefjandi tímum. Til að takast á við þetta verðum við að bæta sjóðstreymi okkar og lækka kostnað með skipulagsbreytingum, segir Håkan Samuelsson, forstjóri Volvo Cars, í fréttatilkynningu.