Nissan hefur þróað efnarafal sem breytir etanóli í rafstraum

Nýi efnarafallinn sem kallast e-bio fuel-cell í tilraunakeyrslu í rannsóknastöð Nissan í Yokohama í …
Nýi efnarafallinn sem kallast e-bio fuel-cell í tilraunakeyrslu í rannsóknastöð Nissan í Yokohama í Japan. Hann vinnur vetni úr etanóli sem breytt er í rafstraum sem knýr rafmótor. Mögulegt er að setja á hann ýmislegt annað eldsneyti, t.d. súrefnisríkt jarðgas. Mynd: NISSAN

Automotive News greinir frá því að Nissan Motor Co. í Japan hafi þróað nýja gerð efnarafals í bíla sem breytir etanóli í rafstraum sem svo knýr bílinn. Nýjungin í þessu er sú að etanólið, sem er vökvi,  er varðveitt í bílnum í venjulegum eldsneytistanki og kemur í stað vetnis sem geyma þarf í bílum undir gríðarlega miklum þrýstingi sem er bæði rándýrt og hugsanlega varasamt. 

Ef þessi nýja tækni gengur upp gæti hún flýtt orkuskiptum í samgöngum vegna þess að þau verða ódýrari og gætu auk þess gengið hraðar fyrir sig. Ekki þarf nefnilega að reisa vetnisstöðvar hvarvetna þar sem innviðirnir eru þegar til og tiltölulega einfaldar breytingar þyrfti að gera á bensínstöðvunum sem fyrir eru. Nissan gengur út frá því að etanólið verði unnið úr ræktuðum plöntum eins og maís og sykurreyr sem og margskonar lífrænum úrgangi sem fellur til, t.d. í pappírsiðnaði.

Þessu til viðbótar verður drifbúnaður bílanna ódýrari í framleiðslu þar sem hann krefst ekki rándýrra koltrefjageyma sem hamið geta vetnið undir mjög miklum þrýstingi. Þá þarfnast sjálfir etanól-efnarafalarnir mun minna magns mjög dýrra málma heldur en vetnis-efnarafalar eins og platínu til að koma af stað þeim efnahvörfum sem skapa rafmagnið sem knýr aflvélar bílanna.  Hideyuki Sakamoto framkvæmdastjóri Nissan segir við Automotive News að Nissan stefni á að setja þessa nýju tækni á almennan markað um 2020. Hún hafi þá ótvíræðu kosti að hún krefjist ekki umbyltingar í innviðum og sé mun öruggari en eldri efnarafalarnir.