Nissan Leaf í reynsluakstri erlendis

Reynsluakstursskýrslur bílablaðamanna bæði austan- og vestanhafs eru teknar að birtast í bílafjölmiðlum um nýja Nissan Leaf rafmagnsbílinn sem fyrstu kaupendurnir munu fá í hendurnar á næstu dögum. Sameiginlegt með þeim flestum sem við höfum lesið, er það hversu skrifurum finnst bíllinn í raun vera hversdagslegur og aksturinn allur tíðindalítill og án óvæntra uppákoma – bíllinn bara keyrir eins og hver annar heimilisbíll, að vísu hljóðlátari og verulega viðbragðssneggri á fyrstu metrunum en sambærilegur bíll með bensínvél og sjálfskiptingu.

http://www.fib.is/myndir/NissanLeaf3.jpg
Nissan Leaf rafmagnsbíllinn - svolítið eins og
djúpsjávar-kynjafiskur á svipinn segir
sænskur blaðamaður
http://www.fib.is/myndir/NissanLeaf1.jpg
Innrétting fremur hefðbundin.
http://www.fib.is/myndir/NissanLeaf2.jpg
Skottið er rúmgott og ekki minna en í mörgum
öðrum bílum í Golf-flokknum
http://www.fib.is/myndir/NissanLeaf4.jpg
Allir mælar eru stafrænir.

Reynsluakstursökumaður bandaríska tímaritsins Popular Mechanics ritar ítarlega um reynsluakstur sinn á Nissan Leaf. Hann ber hann saman við Toyota Prius en yfirbragðið beri þó fyrst og fremst svip af Renault, ekki síst baksvipurinn. Þar sé ekkert púströr sjáanlegt enda gefi bíllinn ekkert púst frá sér í akstri og þar með ekkert CO2 gróðurhúsaloft. Það auðvitað eigi eftir að skila sér síðar í því að aldrei þarf í þessum bíl að hugsa um viðhald og endurnýjun á pústkerfi, aldrei muni þurfa að sinna neinu viðhaldi sem brunahreyflar krefjast, eins og olíu- og síuskiptum og slíku. Þá eigi menn ekkert erindi lengur inn á bensínstöðvar og fjöldamargar almennar verslanir, ekki síst stórverslanir í dagvöru og allskonar sérvöru, jafnvel bókaverslanir, hafi nú þegar sett upp hleðslustaura á bílastæðum sínum. Í þessu sambandi nefnir hann matvöruverslanakeðjuna Whole Foods í Texas, Mom-and-pop bókaverslun í sama ríki og MacDonald´s í N. Carolina.

Uppgefið meðaldrægi bílsins segir bílarýnirinn vera sagt í kring um 160 kílómetrar og að loknum blönduðum dagsakstri í þéttbýli, þjóðvegum og hraðbrautum þar sem aldrei var stungið í samband, var enn nægur straumur á geymunum. Þó var bílnum ekið upp í 90 mílna hraða (140 km) en þá sýndu mælar að hratt gekk á strauminn. Nokkuð af honum endurvannst síðan þegar hemlað var  og í akstri í Eco-akstursham í borgarakstri þar sem mikið er tekið af stað og hemlað, var rafmagnseyðslan  hófleg.

Eftir að búið er að stinga kveikilykli í svissinn og ýta á takka sem á stendur Start, heyrist bjölluhljómur sem merkir að bíllinn er tilbúinn til aksturs. Annað hljóð heyrist ekki fyrr en búið er að færa „gírstöngina“ á D og stigið er á „inngjöfina.“ Þá fer bíllinn af stað og gefur um leið frá sér hljóð sem ætlað er til að vara fótgangandi umferð í kringum bílinn við. Þetta hljóð hættir svo þegar bíllinn hefur náð 20 mílna eða 32 km hraða.

Í venjulegum akstursham er bíllinn mjög viðbragðsfljótur  og nær 100 km hraða úr kyrrstöðu á undir 10 sekúndum. Viðbragðið er áberandi snöggt í framúrakstri upp að ca 70-80 km hraða og þar er Nissan Leaf jafnvel sneggri en aflmestu bílar með stórar V6 og V8 vélar. Lesa má umfjöllun blaðamanns Popular Mechanics hér.