Nissan Leaf söluhæsti rafbíllinn í Noregi

Í október 2011 hóf Nissan í Noregi að selja rafbílinn Leaf sem var valinn bíll ársins í Evrópu 2011.  Bíllinn hefur verið í boði hjá 11 söluaðilum Nissan í Noregi .  Þegar eru 1.406 Nissan Leaf seldir og þar með er Leaf söluhæsti rafbíll sögunnar í Noregi.

Á fyrri helmingi 2012 er búið að skrá í Noregi 1.033 Leaf bíla, 336 Mitsubishi i-Miev, 180 Citroën C-Zero og 140 Peugeot iOn.

Norsk yfirvöld hafa sett fram pólitísk markmið um það að stórauka hlutfall rafbíla í umferð í Noregi.  Til að ná þessum markmiðum njóta kaupendur rafbíla ýmissa fríðinda sem gerir rafbílana mun samkeppnishæfari gagnvart hefðbundum sprengihreyfilsbílum. Engin opinber gjöld (hvorki vörugjald né virðisaukaskattur) eru lögð á nýja rafbíla við skráningu á meðan aðrir bílar bera með hæstu álögum sem þekkjast í heiminum.  Um og yfir helmingurinn af útsöluverði margra nýrra bíla er skattur í norska ríkissjóðinn.  Þrátt fyrir þessar ívilnanir eru rafbílar ennþá það dýrir frá framleiðendum að þeir eru dýrari til neytenda en sambærilegir bílar með sprengihreyfli.  Nissan Leaf kostar frá 264.000 norskum krónum (um 5.550.000 íslenskar krónur) en Nissan Note kostar frá um 200.000 NOK (4.200.000 ISK kostar frá 2.740.000 hjá BL hér á landi).  Á móti kemur að orkukostnaðurinn á rafbílinn er mun ódýrari.

Rafbílar njóta að auki ýmissa annarra fríðinda.  Betri og ókeypis aðgangur að opinberum bílastæðum í borgum og bæjum.  Víða er hægt að fá hleðslu á bílinn án endurgjalds.  Þegar er búin að byggja upp net um 3.300 hleðslupósta fyrir rafbíla í Noregi.  Rafbílar mega aka á forgangsakreinum almenningsvagna.  Rafbílar borga ekki veggjöld sem víða eru innheimt í Noregi eins og t.d. inn í miðborg Osló og um nýrri veggöng og brýr.  Það þarf ekki að borga undir rafbíl flutningsgjald í ferjur og flóabáta innan Noregs.  Ársgjald (bifreiðagjald) rafbíla til ríkisins er 405 NOK en af öðrum bílum er borgað frá 2.885 til 3.360 NOK árlega.

Rafbílarnir hafa ennþá þann ókost að vera með minni aksturshring á rafhleðslunni samanborið við bensín- og dísilbíla. Um og yfir helmingurinn af kostnaðarverði rafbíls eru rafhlöðurnar. Rafhlöðurnar eru bæði dýrar og hafa takmarkaðan líftíma en á móti kemur að mun færri slitfletir eru í rafbíl samanborið við ,,hefðbundna“ bíla.  Viðhaldskostnaður fyrstu árin á meðan rafhlöðurnar eru í lagi ætti að vera ódýrari en á 10 til 15 ára líftíma ökutækis þá verður viðhaldskostnaður rafbíla óhagstæður miðað við núverandi rafhlöðuverð og endingu þeirra.  Þróun rafhlaðna, ný tækni og efnisval bendir til þess að rafhlöðurnar muni verða mun ódýrari og endingarbetri innan fárra ára.