Nissan-Renault veðjar á umhverfismildari bíla

http://www.fib.is/myndir/NissanMicra.jpg
Nissan Micra.

Í starfsáætlun Nissan til næstu ára er ætlunin að leggja mikla vinnu og fjármuni í þróun bíla sem nýta óhefðbundna orkugjafa. Bæði er um að ræða tvinn- eða tvennubíla, etanólbíla og hreina rafbíla með eða án efnarafals. Áætlunin nefnist Nissan Green Program og var hún send fjölmiðlum í gær. Í henni segir að rafmagnsbíll verði markaðssettur strax árið 2010.  Áætlunin nær til allrar starfsemi Nissan og á að leiða til stórfellt minni losunar koldíoxíðs.

Nissan boðar á næstu þremur árum mikla fjölgun bíla sem brenna lífrænu eldsneyti, aðallega etanóli. Þá verður þróaður nýr tvennubíll sem koma á á markað 2010 og sömuleiðis rafbílar. Unnið er nú að þróun nýrra líþíum-jónarafhlaða fyrir rafbílana með bæði meira orkurými og styttri hleðslutíma en hingað tl hefur verið algengast.  Sömuleiðis er nýr þriggja lítra bíll (sem eyðir þremur lítrrum á hundraðið) boðaður 2010 þannig að það ár á greinilega að verða  mikið tímamótaár hjá Nissan / Renault.

Hjá Nissan er nú unnið að nýjum gerðum bensínvéla með túrbínu og beinni strokkinnsprautun eldsneytisins. Þær eiga að koma á markað á tímamótaárinu 2010. Þessar nýju vélar munu í lítrum talið eyða ámóta og dísilvélar með sambærilegu afli og gefa frá sér ámóta af koltvíildi og þær, eða 10% minna en hreinustu dísilvélarnar nú gera.

http://www.fib.is/myndir/Nissan-cvt.jpg

En ekki nóg með það því að Nissan ætlar að stóraka framleiðslu á stiglausu CVT sjálfskiptingunum sem hafa verið algengar í t.d. Nissan Micra. Þessar sjálfskiptingar stilla gang vélarinnar af þannig að hún er alltaf á hagstæðasta snúningshraða og álagi og eyðir því minnu og mengar um 10% minna en sé hún tengd venjulegri sjálfskiptingu eða handskiptum gírkassa.

Í frétt frá Renault um samskonar áætlun og Nissan gaf út á mánudaginn segir að í umhverfismálunum ætli Renault  frá og með árinu 2008 að selja minnst eina milljón bíla sem blása frá sér minna en 140 grömmum af CO2 á hvern ekinn kílómetra. Þar af verði útblásturinn frá þriðjungi þessara bíla minni en 120 grömm á kílómetra. Minnst helmingur þessara bíla muni geta jafnt ekið á etanóli eins og bensíni og verði ekki dýrari en bílar sem aðeins geta nýtt bensín sem eldsneyti.