Nissan yfirtekur Mitsubishi Motors

Carlos Ghosn forstjóri Nissan - Renault (tv.) og Osamu Masuko handsala kaupin á blaðamannafundi í Yo…
Carlos Ghosn forstjóri Nissan - Renault (tv.) og Osamu Masuko handsala kaupin á blaðamannafundi í Yokohama í Japan í morgun.

Stjórn Nissan Motor Co hefur samþykkt að kaupa 34 prósenta hlut í Mitsubishi Motors Corp fyrir 2,2 milljarða dollara. Með þessu fær Nissan ráðandi stöðu í Mitsubishi. Reuters fréttastofan greinir frá þessu.

Mitsubishi Motors hefur átt í verulegu basli lengi og verið á glötunarvegi. Eftirspurn eftir bílunum hefur minnkað jafnt og þétt og hver vandinn og hneykslið rekið annað undanfarna tvo áratugi. Yfirtakan er því talin vera vera lífgjöf fyrir bílaframleiðandann og um leið happafengur fyrir Nissan, næst stærsta bílaframleiðanda Japans, sem reynt hefur með misjöfnum árangri að auka hlut sinn í Suðaustur-Asíu, í löndum eins og Tælandi og á Filppseyjum þar sem einmitt Mitsubishi bílar hafa löngum verið vinsælir.

Mitsubishi og Nissan hafa átt í tækni- og þróunarsamvinnu frá 2011. Carlos Ghosn forstjóri Nissan (og Renault) sagði í morgun á blaðamannafundi í Yokohama í Japan þar sem viðskiptin voru kynnt, að eignarhaldsbreytingin nú myndi skila báðum fyrirtækjunum gríðarlegum ávinning í öllu tilliti og ekki síst í sambandi við tækniþróun, samnýtingu verksmiðja, framleiðslueininga og markaðsmálum.