Norðmenn byrjaðir að slökkva á FM útvarpinu – DAB tekur við

Norðmenn eru byrjaðir að slökkva endanlega á FM og AM (miðbylgju) útvarpssendum í landinu. Í stað FM útvarpsins kemur stafrænt útvarp (DAB). Net DAB-senda er þegar tilbúið að mestu til að leysa FM- útvarpið af hólmi.

   Þann 11. janúar sl. var slökkt öllum FM sendum á Nordland svæðinu sem er syðst í Noregi og 8. febrúar nk. verður slökkt á gömlu útvarps- og sjónvarpssendunum (hliðrænu sendunum) þar fyrir norðan, eða í Þrændalögum og Mæri. Þar á eftir verður slökkt sífellt norðar og norðar og að síðustu nyrst í landinu á Troms- og Finnmerkursvæðinu. Það verður gert undir lok ársins. Þar með er hliðrænt útvarp úr sögunni í Noregi.

   DAB kerfið er þegar orðið nokkurnveginn fullvirkt enda þarf almenningur að hafa svigrúm til aðlögunar að nýja kerfinu vegna þess að gömli venjulegu FM viðtækin bæði heima og í bílunum verða ónothæf eftir næstu áramót víðast hvar. Það þýðir að til að geta heyrt útvarp þarf að endurnýja útvarpið í bílnum, fjarlægja FM tækið úr bílnum og kaupa DAB útvarp í staðinn. Sama þarf þá að gera við ferðaútvarpstækin og jafnvel hljómtækin í stofunni. En auðvitað má í millitíðinni heyra útvarp í gegn um nettengda tölvu.

    Þegar í dag eru 762 DAB-sendar orðnir virkir í Noregi. Flestir eru á vegum ríkisins og miðla útvarpssendingum norska ríkisútvarpsins, bæði hinum almennu rásum og svæðisútvarpsrásum. En 188 sendar eru í einkaeigu og miðla bæði opinberu útvarpsrásunum og einkareknum auglýsingarásum. Útsendingar DAB útvarps eiga að nást nánast allsstaðar í Noregi, þar á meðal inni í a.m.k. 260 veggöngum um allt landið og til skipa, olíuborpalla og eyja í rúmlega 50 km fjarlægt frá Noregsströndum.

   Noregur er fyrsta ríkið í heiminum til að hætta alfarið rekstri hliðræns útvarps (FM/AM). 20 ár eru síðan ákvörðunin var tekin um það og þá um leið hófust stafrænar útsendingar (DAB) útvarps í landinu.