Norðmenn kátir með Skoda

 Árleg ánægjukönnun meðal Norðmanna, svonefnd  NKB könnun eða Norsk Kundebarometer leiðir í ljós að efst á lista trónir farsímafyrirtæki sem heitir One Call. Meðal tíu efstu fyrirtækjanna eru þrjú bílaumboð.

 Af bílaumboðunum sem á þessum lista eru, er mest ánægja með Skoda sem hlýtur ánægjuvísitöluna 82,1. Skoda er í fjórða sæti á listanum. Næsta bílaumboð er svo Toyota með ánægjuvísitöluna 81,7. Toyota er annars í sjötta sæti á listanum.  Loks er það Audi sem er í áttunda sæti listans með ánægjuvísitöluna 81,1. (Sjá listann hér).

Í sömu könnun á síðasta ári varð BMW efsta bíltegundin og sat í öðru sæti heildarlistans. Í ár hefur gengi BMW í þessari könnun fallið talsvert því að nú er BMW í 14. sæti.

Segja má að árangur Toyota sé athyglisverður því að vörumerkið lenti í talsverðum hremmingum mest allt síðastliðið ár og fékk mikla og á stundum óvægna umfjöllun vegna meintra galla í bílunum.