Norðmenn vilja leðraða bíla
Þegar fólk í Noregi leitar að bíl til kaups spyr það oftast eftir því hvort bíllinn sé með leðursætum eða þá fáanlegur með þeim. Þetta kom í ljós við greiningu á því sem fólk spyr oftast um á norsku leitarvélinni finn.no þegar það leitar að notuðum bílum til kaups. Þetta kemur nokkuð á óvart því að menn hafa viljað trúa því hingað til að búnaður eins og GPS, staðsetningarbúnaður, öflug og vönduð hljómtæki, sjálfskipting, dráttarbeisli eða öflug vél sé ofar á óskalistum flestra.
Það eru semsé góð og mjúk leðursæti sem fólkið vill helst hafa í bílunum og leðraðir notaðir bílar seljast fljótar og betur en bílar með öðru áklæði á sætum og innréttingum. Leðrið er talsvert algengt í bandarískum bílum og það jafnvel þótt þeir séu alls ekki meðal dýrustu gerðanna sem fáanlegar eru. Leðurinnréttingar eru sjaldgæfari í evrópsku bílunum og einskorðast að mestu við dýrustu gerðirnar. Kona sem er einn stjórnenda norsku leitarsíðunnar finn.no segir að þeir sem eru að leita að bílum til kaups, leiti fyrst og fremst eftir tegundum. Þegar síðan kemur að því að þrengja leitarskilyrðin er skinn (leður) algengasta leitarorðið.
Hún segir ekki vafa leika á því að lang flestir telji að leðuráklæði og leðurinnréttingar bíla séu merki um gæði og svolítinn lúxus í bland. En jafnframt sé leðrið líklegt til að endast vel og er jafnframt auðvelt að halda því hreinu og vel útlítandi