Norski rafbíllinn Think fær lengra líf

Think Ox rafbíllinn var sýndur á bílasýningunni í Genf fyrir rúmu ári. Bíllinn vakti verulega athygli og haldið var að hann boðaði nýja og betri tíma hjá hinum norska rafbílaframleiðanda. En lásfjárkreppan fór illa með þær vonir. 

 

Norski rafmagnsbíllinn Think hefur gengið gegnum súrt og sætt. Think rafbíllinn leit fyrst dagsins ljós í Noregi upp úr 1990 sem tveggja manna borgarfarartæki. Eftir nokkurra ára starfsemi keypti Ford Think, en gafst upp á honum fljótlega og seldi aftur til Noregs. 


Reksturinn hefur alla tíð síðan verið erfiður en segja má að menn hafi verið full snemma á ferðinni með rafbíl á tímum ódýrs eldsneytis og hægfara þróunar í tækni fyrir rafbíla, ekki síst rafgeymatækni. En með stórhækkuðu eldsneytisverði var hafist handa í alvöru við að leysa rafbílana úr ánauð hinna níðþungu og endingarlitlu blý/sýrurafgeyma og að þróa jafnframt sjálfa bílana á þeirra eigin forsendum. Þegar hér var komið sögu virtist framtíðin verða bjartari fyrir Think en áður. 


Á bílasýningunni í Genf í fyrra sýndi svo Think frumgerð nýs fjögurra manna bíls, Think OX. Bíllinn vakti mikla athygli og brautin framundan virtist bein og breið, en þá skall á lánsfjárkreppan. Í desember sl. komst framleiðslan svo í þrot vegna lausafjárskorts. Síðan þá hefur verið unnið að því að endurfjármagna starfsemina og nú herma norskir fjölmiðlar að tekist hafi að útvega þær 40 milljónir norskra króna sem vantaði til að koma framleiðslunni aftur af stað. Enn vantar þó um 160 milljónir NKR til að tryggja starfsemina og áframhaldandi vöruþróun varanlega. Nú er leitað með logandi ljósi eftir nýjum hluthöfum sem geta komið inn í fyrirtækið með það fé sem upp á vantar.