Norskur rafbíll á markað

http://www.fib.is/myndir/Think_city.jpg
  Think City. 


Norski rafknúni smábíllinn Think hefur átt erfiða fæðingu. Hátt í áratugur er síðan frumgerðir Think bíla fóru að sjást á bílasýningum í Evrópu. Svo keypti Ford Think en náði ekki að gera sér neinn mat úr honum og svo fór að Think komst aftur í eigu Norðmanna. Verksmiðjan fékk greiðslustöðvun á síðasta ári en er nú tekin til starfa á ný eftir að tókst að útvega meiri peninga í reksturinn. Og þessa dagana er innflutningur að hefjast til Danmerkur á tveggja manna borgarbílnum Think City.

Tæpast er við því að búast að barist verði um Think City, því að hann er rándýr. Fyrstu ca. 40 eintökin sem koma á markað í Danmörku kosta með rafgeymum um 290 þúsund danskar krónur eða rúmlega sex milljónir ísl. króna og það án hinna ofurháu dönsku skráningargjalda sem reikna má með að verði minnst annað eins.

Fréttavefur FDM, systurfélags FÍB í Danmörku segir að þrátt fyrir hið gríðarháa verð sé ekki hörgull á kaupendum og ýmis fyrirtæki, samtök og rannsóknaverkefni bíði í röð eftir því að fá keypta rafbíla. Flestum þessara aðila hafi reyndar tekist að útvega styrki til kaupanna, en bílarnir bara ekki fengist.

Geymarnir í Think bílunum eru saltgeymar sem geta geymt nægan straum til að aka bílnum 160 kílómetra í einu sem er meira en líþíumgeymar Think bíla ráða við. Saltgeymarnir eru hins vegar talsvert lengi að taka hleðslu og tapa straumnum ef bílinn stendur lengi ónotaður. 

Think City er sem fyrr segir tveggja sæta bíll en möguleiki er á að koma fyrir tveimur barnasætum í honum að auki.