Núllsýn á Íslandi

Vinnuhópur um umferðaröryggi hefur skilað frá sér ágætri skýrslu um núllsýn í  umferðinni. Núllsýn snýst um að stefna að því að fækka dauðaslysum í umferðinni niður í ekkert – að enginn farist í umferðarslysum. Hópurinn leggur til að tekin verði upp núllsýn í umferðarmálum á Íslandi og tímabundin markmið verði sett upp til að nálgast sýnina í áföngum á kerfisbundinn hátt.

Til að svo geti orðið þarf sterkan pólitískan vilja, sem og einnig skilning stjórnvalda og ráðamanna á þeim vandamálum, sem við er að etja í þessum málum hér á landi, eins og segir í skýrslunni. Lagt er til að núllsýn verði tekin upp í lög hér á landi. En til að það beri árangur telur vinnuhópurinn að til þurfi m.a. skuldbindingu stjórnvalda um bætt umferðaröryggi og að nauðsynlegt fjármagn til fjárfestinga í umferðaröryggi verði tryggt. Þá verði þekktar leiðir til að ná gagnvirkum og skjótum árangri nýttar, rannsóknir og marktækar úttektir með gagnasöfnun og úrvinnslu verði nýttar, stjórnkerfi umferðaröryggis verði eflt og komið verði á hraðara flæði upplýsinga.

Skýrslan var unnin á vegum Háskólans í Reykjavík og verkið var styrkt af Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar. Hana er að finna sem PDF skjal hér.

Í starfshópnum voru dr. Haraldur Sigþórsson verkfræðingur og lektor, sem var leiðtogi hópsins Rögnvaldur Jónsson verkfræðingur og fyrrv. framkvæmdastjóri hjá Vegagerðinni, dr. Stefán Einarsson áhættuverkfræðingur og dr. Valdimar Briem umferðarsálfræðingur.