Ný-afstaðið landsþing FÍB

Landsþing Félags íslenskra bifreiðaeigenda var haldið laugardaginn 7. mars  nk. Steinþór Jónsson í Reykjanesbæ var endurkjörinn formaður félagsins. Auk hans eru þessir aðalfulltrúar í stjórn nú: Ingigerður Karlsdóttir Kópavogi, Kristín Sigurðardóttir Reykjavík, Ólafur Kr. Guðmundsson Reykjavík og Viggó Helgi Viggósson Reykjanesbæ. Varafulltrúar í stjórn eru Ástríður H. Sigurðardóttir Reykjanesbæ, Bragi Þorsteinn Bragason Garðabæ og Jóhann Grétar Einarsson Seyðisfirði.

Á landsþinginu var samþykkt ályktun um að hvetja innanríkisráðherra til að fela Neytendastofu að hefja rannsókn á iðgjöldum ökutækjatrygginga. Hún er svohljóðandi:

Hvatning til innanríkisráðherra

Landsþing FÍB 2015 hvetur innanríkisráðherra til að fela Neytendastofu að hefja rannsókn á iðgjöldum ökutækjatrygginga. 

Alla jafna ætti slík rannsókn heima hjá Fjármálaeftirlitinu (FME) en sú stofnun er í mjög óeðlilegri stöðu. FME á að tryggja að tryggingafélögin séu fjárhagslega burðug til að mæta áföllum en jafnframt á stofnunin að sjá til þess að ekki sé verið að innheimta of há iðgjöld af lögbundnum tryggingum.  Fyrra hlutverkið virðist vega þyngra en það síðara hjá FME. FÍB telur eðlilegt að svona rannsókn sé framkvæmd af Neytendastofu enda snertir þetta hagsmuni neytenda.

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,81% yfir árið 2014. Á sama tíma hækkuðu iðgjöld ábyrgðartrygginga ökutækja um 4,28% og iðgjöld kaskótrygginga um 1,62%.  Í byrjun árs 2015 lækkaði kostnaður tryggingafélaganna vegna ökutækjatjóna, þar sem 15% vörugjald af innfluttum varahlutum var aflagt um áramót og virðisaukaskattur á viðgerðarvinnu, varahluti og nýja bíla lækkaði um tæp 6%. Ekkert bendir til að tryggingafélögin hafi tekið tillit til þessarar kostnaðarlækkunar við útgáfu iðgjalda í byrjun ársins 2015.

Ekki þarf að hafa mörg orð um áhrif þess þegar afnám vörugjalda og lækkun virðisaukaskatts skilar sér ekki til neytenda. Þessum breytingum er ætlað að vega upp á móti hækkun í neðra þrepi virðisaukaskattsins. Tryggingaiðgjöld vega einnig þungt í vísitölu verðtryggingar. Af þessum ástæðum er mikilvægt að ítarleg rannsókn fari fram sem fyrst á iðgjöldum ökutækjatrygginga hér á landi.

Ennfremur var samþykkt svohlóðandi áskorun til stjórnvalda um þjóðarátak gegn niðurbroti vega:

Áskorun til stjórnvalda um þjóðarátak gegn niðurbroti vega

Ástand vega og gatna er mjög lélegt um þessar mundir.  Á höfuðborgarsvæðinu þar sem umferð er mest á landinu og á helstu þjóðleiðum utan þess hafa djúp hjólför fengið að myndast í yfirborð vega og gatna og lítið verið gert til úrbóta.  FÍB hefur ítrekað varað við þessu ástandi sem er bæði varasamt og háskalegt. 

Sparnaður og niðurskurður í viðhaldi og nýbyggingum vega er farinn að kosta bíleigendur, fyrirtæki og samfélagið í heild verulega fjármuni. Þetta ástand eykur mjög hættu á slysum, meiðslum og manntjóni. Slæmir vegir auka kostnað við viðgerðir og viðhald bíla, jafnframt aukast tafir og óþægindi vegfarenda.

Um land allt hefur verið sparað svo í viðhaldi gatna hjá ríki og sveitarfélögum undanfarin ár að stórsér á vegakerfinu.  Ef fram heldur sem horfir brotna þjóðvegir niður.  Kostnaðurinn við endurnýjun margfaldast ef viðhaldsleysið leiðir af sér það alvarlegt niðurbrot á yfirborðsslitlaginu að það brotnar og rofnar þannig að niðurbrotið nær einnig að skemma undirlagið.