Ný Bosch tækni gerir gömlu bílana öruggari

Intelligent Transport Management System (iTraMS) nefnist nýr tæknibúnaður sem þróaður hefur verið hjá Bosch í Indlandi, Þennan búnað má auðveldlega setja í alla bíla, ekki bara nýja á framleiðslustigi heldur líka eldri bíla. Þetta er vöktunarkerfi sem fylgist með og skráir allar hreyfingar bílsins, hvar hann er og hvert hann fer, hvernig hann er keyrður og hversu langt og hverju hann eyðir. Með þessu kerfi í sem allra flestum bílum vonast Bosch til að stuðla að öruggari umferð og umhverfismildari.

Þetta vöktunarkerfi getur dregið úr eldsneytiseyðslu og veitt upplýsingar um ástand bílsins og hvort hann þarfnist einhverskonar viðhalds og aðhlynningar. Það hentar ekki bara fyrir fólksbíla heldur líka hverskonar flutningabíla af hvaða stærð sem er, sem og vinnuvélar og þá sem gera út bíla- og tækjaflota. Allar  upplýsingar sem kerfið aflar getur umráðamaður nálgast í snjallsíma sínum. Kerfið getur einnig fylgst með umferðinni og fundið hvar umferðarhnútar eru eða hafa myndast og leiðbeint ökumanni framhjá þeim eða fundið fyrir þá laust bílastæði..

Indverjar eru mjög framarlega í hverskonar forritun og hugbúnaðargerð, ekki síst þeirri sem tengist farartækjum og umferð, Þannig er  svokallað eCall öryggiskerfi í bíla upprunnið í Indlandi. Það sem eCall gerir er að hringja sjálfvirkt í neyðarþjónustu ef slys eins og t.d. árekstur eða útafakstur á sér stað.